Fjölmiðlafyrirtækið 365 skilaði 305 milljóna hagnaði á síðasta ári og er það aukning um 55 milljónir frá árinu áður. Í ársreikningi félagsins kemur fram að þrátt fyrir að veltufjárhlutfall þess sé lágt, eða 0,61, þá telji stjórnendur félagið rekstrarhæft í fyrirsjáanlegri framtíð.
Endurskoðendur ársreikningsins benda á að gangi áætlanir stjórnenda ekki eftir gæti ríkt vafi á rekstrarhæfi félagsins. Þá segja þeir að upplausnarvirði eigna samstæðunnar geti verið verulega lægra en bókfært virði þeirra yrði starfsemin lögð af. Þetta þýðir með öðrum orðum að miðað við eignir félagsins í dag eru líkur á því að þær dugi ekki upp í skuldir og aðrar kröfur komi til upplausnar félagsins.
Rekstrarkostnaður félagsins minnkaði lítillega milli ára og nam 2.107 milljónum, en rekstrarhagnaður hækkaði um rúmlega 200 milljónir milli ára og var 736 milljónir. Eignir félagsins eru samtals 9.856 milljónir, en þar af nema óefnislegar eignir 5.880 milljónum. Af óefnislegum eignum eru 5.572 milljónir vegna viðskiptavildar.
Eiginfjárhlutafall félagsins var 26,0% í árslok 2012. Laun og aðrar greiðslur til stjórnar og sex stjórnenda námu samtals 174 milljóna á árinu 2012, en árið 2011 voru þær 172 milljónir.