Samanlagður hagnaður stóru viðskiptabankanna þriggja frá ársbyrjun 2009 til loka júní á þessu ári er um 223,4 milljarðar króna. Tímabilið skiptist niður í fjögur og hálft ár, eða 54 mánuði, og er samanlagður hagnaður á mánuði því um 4,13 milljarðar króna, hvern einasta mánuð.
Það gera 136 milljónir króna á dag í um 1.642 daga, eða sem svarar 5,7 milljónum króna á klukkustund, frá 1. janúar 2009 til 30. júní 2013., að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Tölurnar eru sóttar í ársreikninga, ársskýrslur bankanna 2009-2012 og uppgjör þeirra fyrir fyrri hluta þessa árs. Sýnir grafið hvernig Íslandsbanki hefur hagnast mest eða um tæplega 90.000 milljónir króna, þrátt fyrir 17,9 milljarða einskiptiskostnað árið 2011 vegna yfirtöku á Byr.