Stærsta smásölukeðja Bretlands, Tesco, hefur ákveðið að fara í samstarf með kínversku fyrirtæki, China Resources Enterprise, en afkoma Tesco var mjög slæm á fyrri hluta rekstrarársins. Er það einkum rakið til erfiðra aðstæðna á evrópskum mörkuðum.
Tesco og CRE hafa gengið frá samkomulagi um samstarf á smásölumarkaði í Kína en með því verður til eitt stærsta smásölufyrirtæki þar í landi.
Tesco er þriðja stærsta smásölukeðja heims, Walmart er sú stærsta og Carrefour er önnur í röðinni. Samstarfið í Kína er liður í alþjóðavæðingu Tesco en fyrirtækið stefnir á að auka hlutdeild sína í nýmarkaðslöndum. Í sameiginlegu félagi mun CRE eiga 80% hlut og Tesco 20%.
Hagnaður Tesco á fyrstu sex mánuðum rekstrarársins dróst saman um 33,6% og nam 820 milljónum punda, 161 milljarður króna. Á sama tímabili í fyrra nam hagnaðurinn 1,235 milljörðum punda.