Evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus náði takmarki ársins 2013 á fyrstu níu mánuðunum þegar pantanir á flugvélum fóru yfir eitt þúsund talsins. Áður hafði Airbus tvívegis endurskoðað áætlun sína á árinu. Einn framkvæmdastjóra Airbus, John Leahy, sagði í dag að áætlunin verði ekki endurskoðuð á ný.
Leahy tjáði sig um málið stuttu eftir að tilkynnt var um samning Airbus við Japan Airlines um kaup á 31 flugvél, en samningurinn hljóðar upp á 9,5 milljarða bandaríkjadala. „Við erum með innanbúðamarkmið sem hljóðar upp á 1.200 vélar en við getum ábyggilega gert töluvert betur en það,“ sagði Leahy en það er móðurfyrirtækið, EADS, sem gerði áætlunina um pantanir á eitt þúsund vélum. Leahy áréttaði að ekkert formlegt nýtt takmark verði sett.
Í lok september höfðu 1.062 flugvélar verið pantaðar hjá Airbus en fyrirtækið afhenti 445 flugvélar á sama tíma. Heildarpantanir eru vel á sjötta þúsund og er talið að um átta ár muni taka að afgreiða þær allar.