Ásdís Kristjánsdóttir hagfræðingur hefur verið ráðin forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins. Ásdís starfaði um skeið hjá fjármálaráðuneytinu en hóf störf hjá Kaupþingi árið 2006 og síðan Arion banka árið 2008. Hún hefur veitt Greiningardeild Arion banka forstöðu undanfarin þrjú ár. Ásdís hefur störf hjá SA í nóvember.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
Ásdís lauk BS-prófi frá verkfræðideild Háskóla Íslands árið 2002 og MS-prófi í hagfræði frá viðskipta- og hagfræðideild frá sama skóla árið 2006. Hún hlaut réttindi sem löggiltur verðbréfamiðlari árið 2010.
Efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins er nýtt svið í starfsemi samtakanna. Það mun sinna fjölbreyttum hagrannsóknum og annarri greiningarvinnu í tengslum við íslenskt atvinnu- og efnahagslíf til kynningar innan samtakanna og utan þeirra.
„Það er mikill fengur fyrir Samtök atvinnulífsins að fá Ásdísi til starfa. Hún mun leiða nýtt efnahagssvið samtakanna en stofnun þess er liður í að styrkja samtökin á sviði hagrannsókna og efla greiningu á stöðu íslenskra fyrirtækja og efnahagslífs,“ er haft eftir Þorsteini Víglundssyni, framkvæmdastjóra SA, í tilkynningu.