Vill stilla arðgreiðslum í hóf

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Ernir

Á síðustu sex mánuðum hefur dregið úr vanskilum í bankakerfinu og endurskipulagning útlána miðar áfram. Þá hefur lausafjárstaða fjármálafyrirtækja batnað og efnahagsbati hérlendis heldur áfram. Þrátt fyrir þessi jákvæðu merki telur Seðlabankinn að enn séu vanskil mikil, skuldsetning fyrirtækja og heimila há og áhætta vegna losunar hafta töluverð. Því þurfi bankar að stilla væntingum um verulegar arðgreiðslur í hóf.

Staðan í meginatriðum óbreytt

Í ritinu Fjármálastöðugleiki, sem kom út í dag, segir Seðlabankinn að í meginatriðum sé staðan frá því í apríl lítið breytt. Viðnámsþróttur fjármálakerfisins hafi vaxið með hækkandi eiginfjárhlutföllum og minnkandi vanskilum. Það leiði til þess að auðveldara sé að mæta þeirri áhættu sem getur steðjað að fjármálakerfinu á næstu árum, til dæmis með afnámi hafta.

Lausafjárstaða er vel yfir þeim mörkum sem sett hafa verið af Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu. Þá hefur efnahagsbati innanlands haldið áfram og hagvöxtur er einnig tekinn að glæðast í helstu viðskiptalöndum, þ.á m. Evrópu, sem vegur þyngst í viðskiptum Íslands. Því má segja að áhætta í umhverfi fjármálafyrirtækja fari almennt minnkandi, þótt hræringar í Bandaríkjunum nýlega valdi nokkrum ugg, segir í skýrslunni.

Styrkja grunnrekstur og stilla arðgreiðslum í hóf

Seðlabankinn ítrekar að þrátt fyrir batnandi stöðu þá séu vanskil enn mikil, þótt verulega hafi dregið úr þeim. Í ljósi þungrar skuldastöðu stórs hóps fyrirtækja og heimila gætu vanskil aukist á ný verði efnahagslífið fyrir áföllum. Í auknum mæli hefur verið tekið á vanda skuldsettra fyrirtækja með lánalengingum, sem óvíst er að dugi til, að mati bankans.

Þá segir Seðlabankinn nauðsynlegt að styrkja grunnrekstur fjármálafyrirtækja þar sem viðnámsþróttur bankanna andspænis nýjum áföllum mun í ríkari mæli hvíla á því að fjármálafyrirtækin ráði yfir umtalsverðum lausafjár- og eiginfjárauka og að grunnrekstur þeirra sé nægilega arðsamur.

Í ljósi framangreinds segir Seðlabankinn að stilla verði væntingum um verulegar arðgreiðslur til eigenda bankanna í hóf. Lækkun eigin fjár og tæpari lausafjárstaða af þeim sökum myndi veikja viðnámsþrótt þeirra andspænis áhættu af losun fjármagnshafta. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK