Breska bókaverslunin WH Smith hefur lokað heimasíðu sinni eftir að í ljós kom að þar eru til sölu rafbækur sem innihalda gróft klám. Þeir sem reyna að fara inn á heimasíðu WH Smith finna aðeins yfirlýsingu þar sem ákvörðun verslunarinnar er útskýrð.
Fjölmiðlar greindu frá því í síðustu viku að hægt væri að kaupa rafbækur hjá Amazon, WH Smith, Barnes & Noble og fleirum sem innhalda gróft klámefni. Bækurnar innihéldu lýsingar á sifjaspellum, nauðgunum og dýraklámi.
Í yfirlýsingu WH Smith segir að verslunin geti ekki sætt sig við að svo gróft klámefni sé til sölu á vegum verslunarinnar. Fyrirtækið hafi því gripið til þeirrar róttæku aðgerðar að loka tímabundið heimasíðunni meðan verið er að losna við þessar bækur af síðunni.
Klámbækurnar eru komnar frá fyrirtækinu Kobo.com. Í yfirlýsingu frá Kobe segir að unnið sé að því að taka úr sölu efni sem grunur leiki á að innhaldi gróft klámefni. Það verði ekki boðið til sölu í framtíðinni.