Störfum á síðasta ári hefur fjölgað nokkuð umfram það sem hagvöxtur hefur gefið til kynna. Þetta sagði Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Íslandsbanka á kynningarfundi fyrir Þjóðhagsspá bankans. Hann sagði að mögulega sé verið að vanmeta landsframleiðsluna meðan atvinnuástandið sé greint rétt. Þetta skili sér í því að landsframleiðslan sé vanmetin.
Segir Ingólfur að menn hafi mikið velt fyrir sér hvað valdi þessari fjölgun í störfum miðað við hægari hagvöxt en gera megi ráð fyrir. Segir hann að mögulegt sé að krafturinn í hagkerfinu sé mun meiri en mælist. Það sem getur skipt miklu máli í því samhengi er svört atvinnustarfsemi að mati Ingólfs, en hann segir þann vöxtur í hagkerfinu illmælanlegan.
Á fundinum sagði Ingólfur að þrátt fyrir að vöxturinn í ár sé ennþá hægur, þá sjái greiningardeildin bjartari mynd fyrir sér á komandi árum. Segir hann að þar sé ekki síst um að ræða að fjárfestingin taki við sér. Þá sé kominn vöxtur á evrusvæðinu, sem sé helsti markaður íslenskra fyrirtækja. Hann bendir þó á að enn sé tvísýnt um ástandið í Bandaríkjunum og það sýni fram á hversu fallvaltur markaðurinn geti verið.
Ingólfur nefndi einnig að þrátt fyrir að skuldir heimilanna væru enn töluverðar, þá hafi þær lækkað mikið undanfarin ár og að sama skapi hafi eignir þeirra aukist. Sagði hann að það sem skipti mestu máli í því samhengi væri hækkandi húsnæðisverð, aukin verðbréfaeign heimilanna og góð ávöxtun þeirra. Þá hafi einnig verið vöxtur í lífeyriseign og því sé eignastaða heimilanna „þrátt fyrir allt nokkuð góð.“ Hann tekur þó fram að þessar eignir séu fastar og því ekki hægt að ganga að þeim beint í öllum tilfellum.