Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Dohop hefur opnað skrifstofu í Noregi en hingað til hefur fyrirtækið einungis haft aðstöðu á Íslandi. Framkvæmdastjóri Dohop segir að fyrirtækið sé að taka hopp inn á markaðinn.
„Við ákváðum að ráða markaðsstjóra í Noregi og sækja þangað af alvöru. Við höfum áður tekið hænuskref þar en langar núna að taka gott hopp inn á markaðinn og sjá hvað við getum gert,“ segir Kristján Guðni Bjarnason, framkvæmdastjóri Dohop. „Eftir velgengni hérna heima undanfarin ár er kominn tími til þess að færa út kvíarnar.”
Vikulega framkvæma notendur Dohop um 150.000 leitir. Notendurnir koma frá öllum þjóðlöndum en 15% þeirra eru Íslendingar og 3% Norðmenn. Bein markaðssetning hefur fyrst og fremst farið fram á Íslandi.
Dohop var stofnað árið 2004 og þar starfa í dag 10 manns við þróun, rekstur og markaðssetningu ferðaleitarvélarinnar Dohop.com. Hjá Dohop er boðið upp á flug, hótel og bílaleit.