Kúba tilkynnti í dag að það ætli að hætta með 19 ára gamalt tvöfalt gjaldmiðlakerfi í landinu. Kerfið hefur aukið tekjudreifingu í landinu, en þeir sem hafa aðgang að Bandarískum dollurum, t.d. gegnum ferðaþjónustu, fá í raun mun hærri laun en þeir sem fá greitt í venjulegum pesó.
Kerfinu var komið á árið 1994 og með því var sérstökum skipti-pesó komið á fót, en hann er beintengdur við Bandaríkjadal. Þeir sem koma með gjaldeyri inn í landið fá skipti-pesó meðan flestir íbúar Kúbu fá greitt í venjulegum pesó og allar greiðslur til ríkisins eru í síðarnefnda gjaldeyrinum. Fyrir hvern skipti-pesó fást 24 venjulegir pesóar og hefur þetta skapað mikinn mun á milli þeirra sem fá greitt í skipti-pesó og þeirra sem fá það ekki.
Ekki er enn ljóst hvenær samþættingin muni eiga sér stað, en í stærsta blaði Kúbu, Granma, er sagt að ríkisstjórnin hafi þegar komið sér saman um tímaáætlun í því sambandi.
Síðan Raul Castro tók við völdum á Kúbu hefur verið farið í þó nokkrar breytingar á hagkerfi landsins og það fært nær nútímanum. Meðal annars hefur ríkisstjórnin leyft einkaaðilum að fjárfesta í litlum fyrirtækjum í auknum mæli og þá hefur opinber skriffinnska verið skorin niður.