Jarðvarmaverkefni í Papúa Nýju-Gíneu

Þekking af jarðvarmauppbyggingu hér á landi hefur leitt til þess …
Þekking af jarðvarmauppbyggingu hér á landi hefur leitt til þess að Reykjavík Geothermal fær nú verkefni á þessu sviði um víðan heim. Kristinn Ingvarsson

Orkufyrirtækið Reykjavík Geothermal hefur gert ráðgjafasamning við ríkisstjórn Papúa Nýju-Gíneu um áætlanagerð fyrir jarðvarma í landinu og nýtingu hans. Davíð Stefánsson, forstöðumaður ráðgjafasviðs Reykjavík Geothermal, segir í samtali við mbl.is að fyrirtækið hafi síðustu þrjú ár stundað miklar rannsóknir í landinu og að sú vitneskja muni nýtast vel við verkefnið. Hann segir fyrirtækið hafa mikinn áhuga á að koma að uppbyggingu virkjana seinna meir, ef viðræður við stjórnvöld gangi eftir og viðskiptaumhverfi sé gott, en Reykjavík Geothermal samdi nýlega um uppbyggingu jarðvarmavirkjana í Eþíópíu.

Davíð segir að undir stjórn Reykjavík Geothermal verði ráðist í umfangsmikla áætlanagerð um það hvar og hvernig jarðvarmi í Papúa Nýju-Gíneu sé best nýttur, en landið er mjög ríkt að jarðvarma og öðrum auðlindum. Hann segir ríkisstjórnina með þessu vera að kaupa íslenskt hugvit á sviði jarðvarma, sem hafi byggst upp hér á landi síðustu áratugi.

Hann segir að gífurlega mikill jarðhiti sé í Papúa Nýju-Gíneu, en að hann verði ekki virkjaður nema í samstarfi við yfirvöld. „Það er undir þeim komið hvenær farið verður í framkvæmdir,“ segir Davíð, en hann segir að Reykjavík Geothermal muni skoða það alvarlega að taka að sér slík verkefni sé það í boði.

Reykjavík Geothermal er í dag með verkefni víðsvegar um heiminn, en fyrir utan virkjunina sem unnið verður að í Eþíópíu vinnur fyrirtækið að ráðgjafaverkefnum á Arabíuskaganum, Karíbahafinu og Afríku.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK