Segja launahækkanir hafa verið of miklar

Launahækkanir í kjarasamningum 2011 voru of brattar að sögn greiningardeildar …
Launahækkanir í kjarasamningum 2011 voru of brattar að sögn greiningardeildar Arion banka. mbl.is

Frá undirritun kjarasamninganna í maí 2011 hefur launavísitalan hækkað um 17,6% á meðan kaupmáttur hefur aðeins aukist um 7,4% á sama tíma sökum hækkandi verðlags. Bendir það til þess að kjarasamningarnir hafi falið í sér of miklar launahækkanir sem hafi verið fyrirtækjum um megn. Þetta kemur fram í greiningu Arion banka í dag.

Segir þar að samið hafi verið um almenna launahækkun upp á 11,4% yfir samningstímabilið, sem var þrjú ár. Komu launahækkanirnar fram í nokkrum skrefum, fyrst í júní 2011, svo febrúar 2012 og sú síðasta í febrúar 2013. Alla jafna er talið að svigrúm til launahækkana vaxi í samræmi við framleiðnivöxt vinnuafls. Hækki laun umfram framleiðnivöxt verður því eitthvað undan að láta, segir greiningardeildin. 

Kjarasamningar geta haft mikil áhrif á framvindu efnahagsbatans að sögn greiningarinnar, ekki eingöngu í gegnum verðlagsþróun heldur einnig í gegnum þróun á vinnumarkaði. Hækki nafnlaun umfram framleiðnivöxt getur það haft þau áhrif að minna verði um ráðningar en áður og jafnvel fjölgun uppsagna í þeim geirum sem eiga hvað erfiðast og atvinnuleysi er hæst.

Greiningardeildin segir aftur á móti að kjarasamningarnir 2011 hafi haft of háleit markmið við að blása til sóknar í atvinnulífinu og meirihluti þess hafi ekki gengið eftir. Í stað þess að tryggja stöðugleika í efnahagslífinu þá fylgdu samningunum vaxandi verðbólga og bakslag í bata vinnumarkaðar. Þannig varð raunverulegur ábati launafólks langt frá því sem lagt var upp með.

Vegna þessa ítrekar greiningardeildin nauðsyn þess að í komandi kjarasamningum taki samningsaðilar tillit til þess hvaða áhrif samningsgerðin muni hafa á verðlag, verðbólguvæntingar, vaxtastig og þróun vinnumarkaðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK