Greiðslukortavelta erlendra ferðamanna í september jókst alls um 22,4% frá sama mánuði í fyrra og nam 6,5 milljörðum kr. Hver erlendur ferðamaður greiddi að jafnaði 89.000 kr. með greiðslukortum hér á landi í september sem er 8,1% hærri upphæð en í sama mánuði í fyrra.
Þetta kemur fram á vef Rannsóknarseturs verslunarinnar.
Stærsti einstaki útgjaldaliður erlendra ferðamanna er gistiþjónusta. Erlend kortavelta á gististöðum var um 1,6 milljarður í september og hækkaði um 26% frá sama mánuði í fyrra. Kortavelta erlendra ferðamanna í verslunum var 1,4 milljarðar sem er 9% meiri velta en í september í fyrra.
Eins og fram hefur komið í umræðu nær ferðamannastraumur yfir sífellt lengra tímabil ársins. Þess sjást greinileg merki því aukin velta er í öllum flokkum nema fataverslun og minjagripaverslun. Þannig var erlend kortavelta bílaleiga 39% meiri í september en í sama mánuði í fyrra. Fjórföldun var í veltu gistirýmis utan hótela og 53% aukning á milli ára í skipulögðum ferðum eins og hvalaskoðun.
Erlendir ferðamenn greiddu með greiðslukortum sínum skyndibita fyrir rúmlega 1,8 milljarð kr. á síðasta ári. Þá er vitaskuld ekki talið með það sem greitt hefur verið með reiðufé. Ef það er talið með má ætla að útlendingar hafi neytt skyndibita hér á landi fyrir meira en tvo milljarða kr. Heildarvelta erlendra greiðslukorta til veitingahúsa var 7,6 milljarður í fyrra og því lætur nærri að um fjórðungur af veitingahúsaveltunni hafi farið til skyndibitastaða.