Rekstur og skuldastaða Garðabæjar er mun verri en gert var ráð fyrir í greinargerð sem kynnt var vegna sameiningar Garðabæjar og Álftaness fyrir rúmlega ári. Skuldir hins sameinaða sveitafélags eru um 1,8 milljörðum hærri en áætlað var og í lok næsta árs verða þær orðnar 2,8 milljörðum hærri en greiningin sagði til um. Þá kemur fram í drögum að fjárhagsáætlun áranna 2014-2017 að rekstrarafgangur þessa árs og næsta verði töluvert lægri en spár höfðu gert ráð fyrir, eða sem nemur samtals 541 milljónum.
Fyrir sameiningu Garðabæjar og Álftaness gerði ráðgjafarfyrirtækið R-3 skýrslu fyrir samstarfsnefnd sveitarfélaganna þar sem áhrif af sameiningu voru skoðuð. Niðurstaðan var meðal annars kynnt í bæklingi sem var sendur á öll heimili í sveitarfélögunum tveimur og á vefsíðunni okkarval.is, sem var auglýst sem upplýsingasíða vegna sameiningarinnar.
Helstu niðurstöður þeirrar vinnu voru að með sameiningu myndi skapast hagræðingarmöguleiki upp á 118,8 milljónir á ársgrundvelli, sem átti að verða náð að fullu árið 2014. Rekstrarafgangur ársins 2013 var áætlaður 412 milljónir og árið 2014 504 milljónir. Þá áttu skuldir að minnka á tímabilinu úr 7,487 milljörðum í árslok 2013 niður í 5,105 milljarða árið 2017.
Fljótlega eftir að sameiningin hafði verið staðfest, í lok árs 2012, var gefin út fjárhagsáætlun fyrir árin 2013-2016 fyrir sameinað sveitarfélag. Þar kemur fram að áætlaður rekstrarafgangur sveitarfélagsins fyrir árið 2013 muni nema 186 milljónum og að skuldir verði 8,832 milljarðar. Það er um 226 milljóna verri rekstrarniðurstaða en kynnt hafði verið fyrir kosninguna og rúmlega 1,35 milljarða hærri skuldastaða. Aðeins nokkrir mánuðir voru á milli útgáfu á greiningunni og fjárhagsáætluninni.
Þegar horft er til ársins 2014 í þessari fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir 473 milljóna rekstrarafgangi og að skuldastaðan yrði 8,8 milljarðar. Þar er reksturinn aðeins um 30 milljónum lægri en greiningin hafði spáð, en skuldastaðan um 1,8 milljörðum hærri.
Nýlega voru svo kynnt drög að fjárhagsáætlun sameinaðs sveitarfélags fyrir árin 2014-2017, en þar er einnig að finna útkomuspá fyrir árið 2013. Rekstrarniðurstaðan fyrir árið 2013 hefur batnað um tæplega 120 milljónir frá fjárhagsáætluninni árið áður, en enn munar um 165 milljónum á þeirri spá sem var gerð af ráðgjafafyrirtækinu. Skuldastaðan hefur einnig versnað nokkuð en hún nemur samkvæmt útgönguspánni 9,3 milljörðum á þessu ári. Það er um 1,8 milljarði verra en kynnt var fyrir kjósendum í kosningu við sameininguna.
Ef árið 2014 er skoðað í nýjustu drögunum kemur fram að spáð er rekstrarafgangi upp á 128 milljónir. Það er minnkun upp á 345 milljónir frá fjárhagsáætluninni frá í fyrra og 376 milljónum verri niðurstaða en greining R-3 hljóðaði upp á. Þá er gert ráð fyrir að heildarskuldir sveitafélagsins muni aukast um 425 milljónir á árinu og nema 9,735 milljörðum í árslok 2014. Það er 1,3 milljarða hærri skuldastaða en spáð var í fyrri fjárhagsáætlun og 2,75 milljörðum meiri skuldir en greining R-3 sagði til um.
Eignir sveitarfélagsins voru í áætlun R-3 ráðgjafar áætlaðar 17,241 milljarðar, en í fjárhagsáætluninni sem kynnt var í fyrra voru þær komnar upp í 18,088 milljarða. Í þeim drögum sem nú liggja fyrir eru heildareignir metnar á 19,489 milljarða og gert ráð fyrir að þær aukist upp í 20,042 milljarða á næsta ári.
Í svörum sem Garðabær sendi vegna spurninga mbl.is um málið kemur fram að lægri rekstrarafgang megi að mestu leyti skýra með varfærnislegri tekjuáætlun vegna óvissu um launaþróun og verðlag. Þá er bent er á að rekstrarafgangur sveitarfélagsins hafi oft verið betri en fjárhagsáætlun sagði upphaflega til um. Varðandi vaxandi skuldastöðu kemur fram í svarinu að farið hafi verið í framkvæmdir fyrir um 1,2 milljarða árið 2013, en það skýri einnig hækkun á eignalið sveitarfélagsins.
Þá segir í svari bæjarins að skuldahlutfall hans sé nú þegar lægra en í greinargerð R-3 og að stefnt sé á að það fari lækkandi á komandi árum.