Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lækkað hagvaxtarspá sína fyrir næsta ár og spáir nú 1,1% hagvexti á evrusvæðinu árið 2014.
Í haustspá sinni, sem framkvæmdastjórnin birti í morgun, segir að 0,4% samdráttur verði á evrusvæðinu á þessu ári, sem er þó minni samdráttur en í fyrra, og að hagvöxturinn taki við sér á næsta ári. Reyndar hafði hún áður spáð 1,4% hagvexti árið 2014 en hefur nú lækkað spá sína í 1,1%.
Í yfirlýsingu frá framkvæmdastjórninni segir að ástandið fari batnandi og að horfur séu á hægum bata. Hins vegar sé mikilvægt að dregið verði markvisst úr skuldabyrði evruríkjanna, sem sé enn of mikil.
Olli Rehn, efnahagsmálastjóri Evrópusambandsins, segir að það versta sé afstaðið í Evrópu. „En það er of snemmt að lýsa yfir sigri: atvinnuleysi er enn of hátt. Þess vegna verðum við að halda áfram að reyna að koma evrópska hagkerfinu í gang.“
Hagvaxtarspá fyrir bæði Frakkland og Spán lækkaði umtalsvert. Nú er spáð 0,9% hagvexti í Frakklandi en ekki 1,1% eins og áður og er aðeins gert ráð fyrir 0,5% hagvexti á Spáni, ekki 0,9%.
Þá er gert ráð fyrir að hagvöxtur taki loks við sér í Grikklandi og Portúgal. Spáð er 0,6% hagvexti í Grikklandi á næsta ári og 2,9% vexti árið 2015. Betri tíð bíður Portúgala, ef marka má spá framkvæmdastjórnarinnar, en þar er spáð 0,8% hagvexti. Portúgalar hafa þurft að þola samdrátt undanfarin fjögur ár.