Hagvaxtarspá lækkuð fyrir Evrópu

Olli Rehn er efnahagsmálastjóri Evrópusambandsins.
Olli Rehn er efnahagsmálastjóri Evrópusambandsins. Yves Logghe

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lækkað hagvaxtarspá sína fyrir næsta ár og spáir nú 1,1% hagvexti á evrusvæðinu árið 2014.

Í haustspá sinni, sem framkvæmdastjórnin birti í morgun, segir að 0,4% samdráttur verði á evrusvæðinu á þessu ári, sem er þó minni samdráttur en í fyrra, og að hagvöxturinn taki við sér á næsta ári. Reyndar hafði hún áður spáð 1,4% hagvexti árið 2014 en hefur nú lækkað spá sína í 1,1%.

Í yfirlýsingu frá framkvæmdastjórninni segir að ástandið fari batnandi og að horfur séu á hægum bata. Hins vegar sé mikilvægt að dregið verði markvisst úr skuldabyrði evruríkjanna, sem sé enn of mikil.

Olli Rehn, efnahagsmálastjóri Evrópusambandsins, segir að það versta sé afstaðið í Evrópu. „En það er of snemmt að lýsa yfir sigri: atvinnuleysi er enn of hátt. Þess vegna verðum við að halda áfram að reyna að koma evrópska hagkerfinu í gang.“

Hagvaxtarspá fyrir bæði Frakkland og Spán lækkaði umtalsvert. Nú er spáð 0,9% hagvexti í Frakklandi en ekki 1,1% eins og áður og er aðeins gert ráð fyrir 0,5% hagvexti á Spáni, ekki 0,9%.

Þá er gert ráð fyrir að hagvöxtur taki loks við sér í Grikklandi og Portúgal. Spáð er 0,6% hagvexti í Grikklandi á næsta ári og 2,9% vexti árið 2015. Betri tíð bíður Portúgala, ef marka má spá framkvæmdastjórnarinnar, en þar er spáð 0,8% hagvexti. Portúgalar hafa þurft að þola samdrátt undanfarin fjögur ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK