Hugmyndin að byggja upp hátæknisetur hér á landi er búin að vera í gerjun síðustu 10 til 15 ár, en hún komst fyrst á flug fyrir um tveimur árum síðan þegar byrjað var að skoða af alvöru að reisa setrið hér en ekki á Möltu eða öðrum stað í heiminum. Þetta segir Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, en fyrsta skóflustungan að nýju hátæknisetri var tekið í Vatnsmýrinni í dag.
Róbert sagði að mörg atriði hafi komið til skoðunar áður en ákvörðun var tekin um staðsetningu, en þrátt fyrir neikvæð áhrif gjaldeyrishafta þá hafi meðal annars einkaleyfisstaða hér á landi og mikið framboð af vel menntuðu starfsfólki vegið þyngra.
Grunnvinna við þetta ferli hófst fyrir tveimur árum með samstarfi við svissneskt fyrirtæki við þróun á líftæknilyfjum. Róbert segir að í framhaldinu hafi þeir byrjað að skoða staðsetningu á hátæknisetrinu. Sú leit hafi staðið í rúmlega eitt ár, en svo hafi verið tekin ákvörðun um Ísland. „Það er ár síðan við tókum endanlega ákvörðun í okkar huga að koma til Íslands þótt við höfum ekki klárað það fyrr en fyrir nokkrum mánuðum,“ segir Róbert.
„Þetta var erfitt val, bæði löndin hagstæð varaðandi einkaleyfi á þróun á lyfjum og Malta er með mikið af styrkjum og lánveitingum frá ríkinu í svona starfsemi,“ segir Róbert og bætir við að reynsla hans af því að reka fyrirtæki bæði hér á landi og erlendis hafi samt leitt hann að þeirri niðurstöðu að Ísland yrði fyrir valinu.
Þegar byggingin verður fullbyggð hefst vinna við að skrifa öll gæðakerfi sem nauðsynleg eru fyrir lyfjastofnanir í Asíu, Evrópu og Bandaríkjunum. Þá verði tekið við þeim lyfjum sem er verið að þróa erlendis og framleiðsla hefjast. Róbert segir að uppistaðan í framleiðslunni verði eigin framleiðsla, en þó verði horft til samstarfs við aðra aðila líka.
Áætlað er að 65 milljarðar muni koma í tekjur árlega vegna framleiðslunnar, en Róbert segir að gera megi ráð fyrir að sú innkoma muni væntanlega nást að fullu árið 2020. Fram að því muni fyrirtækið einnig fá erlendar tekjur, en þó í minna mæli.
Búið er að fjármagna verkefnið að fullu, en Róbert segir að Alvogen leggi til eigið fé að hluta en að innlendur viðskiptabanki fyrirtækisins leggi einnig til lánsfé. Öll fjármögnun þróunarvinnunnar, sem áætlað er að verði um 17 milljarðar á næstu 10 árum, mun koma frá Alvogen að sögn Róberts. Framkvæmdin við byggingu hússins mun aftur á móti kosta um 8 milljarða, en hún mun taka um tvö ár.
Róbert segir að mikil tækifæri séu í líftæknigeiranum. Nefnir hann að innan fárra ára sé því spáð að 8 af 10 stærstu lyfjum í heimi verði líftæknilyf. Þá sé þróun og framleiðsla slíkra lyfja ekki í mörgum löndum í dag. Hann segir ekki mörg fyrirtæki í þessari starfsemi og því séu gríðarleg tækifæri fyrir háskólann að læra af þeim starfsmönnum, bæði innlendum og erlendum sem hafa margir áratugareynslu af lyfjaþróun.
Þá segir hann einnig gott fyrir fyrirtækið að eiga samstarf við háskólann upp á framtíðar starfsfólk og lokaverkefni nemenda tengd þróun innan fyrirtækisins. Róbert segist einnig reikna með því að aukinn kraftur fari í uppbyggingu þeirra sviða sem tengist líftæknigeiranum, en það gerist sjálfkrafa þegar eftirspurn sé kominn eftir útskrifuðum nemendum á þessu sviði.