Besta mögulega niðurstaðan í tengslum við uppgjör þrotabúa föllnu bankanna og í kjölfarið afnám fjármagnshafta væri ef erlendir kröfuhafar og íslensk yfirvöld myndu ná samkomulagi sem yrði stutt af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS).
Hægt væri að hugsa sér að AGS myndi veita skilyrta fjármögnun í erlendri mynt (e. contigent funding) í því skyni að auka trúverðugleika afnámsferlisins. Sjóðurinn hefur hagsmuna að gæta þar sem hann þyrfti að takast á við þær afleiðingar með íslenskum stjórnvöldum ef gengi krónunnar myndi falla skarpt við afnám hafta.
Þetta var á meðal þess sem kom fram í máli Johns Eatwells lávarðs, forseta Queen's College við Cambridge-háskóla í Bretlandi, á opnum kröfuhafafundi Glitnis í London í gær, sem fjallað er um í Morgunblaðinu í dag. Þar kynnti hann mat sitt á þjóðhagslegum stærðum og skýrslum um íslenska hagkerfið.