Greining Íslandsbanka telur að verðbólu sé ekki að finna á innlendum hlutabréfamarkaði í dag. Nærtækara sé að tala um bjögun.
Eins og alkunna er hefur eftirspurnarþrýstingur lífeyrissjóðanna vegna gjaldeyrishafta leitt til lækkunar á ávöxtunarkröfu markaðarins og þar með hækkunar á markaðsverði hlutabréfa. Fram kemur í greiningunni að fæstum hugnist þessi þróun þar sem verðlagning hlutabréfa sé þá líkleg til að víkja frá eðlilegri verðlagningu utan fjármagnshafta.
„Það er þó erfitt að tala um að þessi þróun orsaki verðbólu á hlutabréfamarkaði, enda er mjög eðlilegt að markaðsálag sveiflist yfir tíma á meðan verðbóla er mun líklegri til að stafa af óeðlilegum væntingum um framtíðarmöguleika rekstrar, sbr. netbóluna, eða hreinlega hjarðhegðun,“ segir í greiningunni. Nærtækara sé því að tala um bjögun - ekki bólu - í þessu sambandi.
Mat Greiningar Íslandsbanka er að verðbólu sé ekki að finna á innlendum hlutabréfamarkaði. „Styðjumst við meðal annars í því við erlendan samanburð, en sem fyrr segir eru ákveðin merki um að markaðsálagið hér hafi tekið að gefa aðeins eftir. Það er þó vissulega þannig að í slíkum samanburði eru sum félög dýrari en önnur.“ Við snöggt afnám hafta gæti þó orðið skyndileg hliðrun á markaðsálaginu með tilheyrandi lækkunum á markaðsverði bréfa.
„Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur þó bent á að eðlilegt sé að stýra því á hvaða hraða lífeyirssjóðirnir færi fjárfestingar sínar úr landi þegar að losun hafta kemur. Við teljum mjög ólíklegt að afnám hafta eigi sér stað á mjög skömmum tíma, meðal annars í ljósi útreikninga AGS á áhrifum þess og áherslu stjórnvalda á að valda ekki óhóflegum sviptingum á fjármálamarkaði vegna afnámsins,“ segir jafnframt í greiningunni.