Samtök fjármálafyrirtækja, Seðlabanki Íslands, Samtök verslunar og þjónustu og Viðskiptaráð Íslands leggjast öll gegn frumvarpi Frosta Sigurjónssonar, þingmanns Framsóknarflokksins og formanns efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, um breytingar á lögum um greiðsluþjónustu.
Frosti vill heimila verslunum að innheimta gjald af þeim sem nota kreditkort en í viðtali við Morgunblaðið í liðnum mánuði sagði hann að verðlag í landinu innifæli álag vegna tuttugu daga greiðslufrests. Ástæðan væri sú að söluaðilum væri meinað af greiðsluþjónustufyrirtækjum að bjóða neytendum sem staðgreiða með debetkorti eða reiðufé betra verð en þeim sem greiða með greiðslufresti, þ.e. kreditkorti.
„Ranglæti felst í því að þeir sem staðgreiða borga þetta álag í dag. Þetta bitnar meira á fátækara fólki sem hefur síður kreditkort og staðgreiðir því fremur neyslu. Hvatinn til að staðgreiða er enginn eða neikvæður hérlendis,“ sagði hann.
Auk fjölmargra þingmanna Framsóknarflokksins standa tveir þingmenn Pírata og einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins að frumvarpinu.
Í ítarlegri umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja um frumvarpið segir að það fyrirkomulag, sem verið sé að hvetja til með frumvarpinu, sé á skjön við það sem almennt tíðkist í viðskiptalöndum okkar. „Ekkert bendir til þess að það fyrirkomulag, að innheimta álög við notkun kreditkorta, sé hagfelldara en það fyrirkomulag sem tíðkast hér og í flestum öðrum löndum sem sé að neytendur sem staðgreiða semji um staðgreiðsluafslátt þegar greitt er með reiðufé eða debetkorti,“ segir í umsögninni.
Hætta sé á því, verði frumvarpið að veruleika, að við taki frumskógur ruglingslegra álaga sem geri það að verkum að neytendur missi yfirsýn um verð á markaði.
Fram hefur komið í máli Frosta að verði frumvarpið að lögum gæti það leitt til almennrar lækkunar á verði sem nemur allt að 1-2%. Samtök fjármálafyrirtækja segja áhrifin hins vegar vera „algerlega óviss“ og í besta falli „mikið ofmat“. Ekkert tillit hafi verið tekið til kostnaðar seljenda við að innleiða breytingarnar og tæknilega erfiðleika.
Viðskiptaráð Íslands tekur undir með Samtökum fjármálafyrirtækja. „Þrátt fyrir að Viðskiptaráð sé í grunninn sammála frumvarpshöfundum um mikilvægi neytendaverndar og þess að draga úr skuldsetningu íslenskra heimila þá tekur ráðið ekki undir réttmæti frumvarps þessa,“ segir í umsögn ráðsins.
Þá segir Seðlabanki Íslands að breytingarnar kunni að vera ótímabærar.
Í umsögn sinni segir Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) að frumvarpið sé ekki tímabært í ljósi þeirrar þróunar sem er að verða á Evrópulöggjöf á þessu sviði. „Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti síðastliðið sumar breytingu á gildandi tilskipun um greiðsluþjónustu sem hefur meðal annars þá breytingu í för með sér að sett eru hámörk á milligjöld í kortaviðskiptum,“ segja samtökin. Hámörk þessi verða 0,2% af verðmæti viðskiptanna þegar um debitkortaviðskipta er að ræða og 0,3% við kreditkortaviðskipti.
„Af umsögnum hagsmunaaðila í Evrópu að dæma virðist þessi tilskipunardrög njóta víðtæks stuðnings og því meiri líkur en minni að þau verði endanlega staðfest í þeirri mynd sem þau eru nú,“ segir jafnframt.
Telja samtökin því eðlilegast að bíða þess að breytingin verði leidd í lög hér á landi.