Afangur Þjóðverja af viðskiptum við útlönd hefur aldrei verið jafn mikill og í septembermánuði, eða 20,4 milljarðar evra. Í ágúst var afgangurinn 13,3 milljarðar evra.
Í september fluttu Þjóðverjar út tæpa 55 milljarða evra í vörum til annarra Evrópusambandsríkja en keyptu aðeins vörur fyrir 48,2 milljarða evra af sömu ríkjum. Borið saman við síðasta ár hefur útflutningur Þjóðverja til ESB-ríkja aukist um 5,4% en innflutningur frá sömu ríkjum um 2,6%.
Mikil umræða hefur átt sér stað í Evrópu um hvort þessi mikli útflutningur Þjóðverja hamli endurreisn jaðarríkja evrusvæðisins en ekki er langt síðan Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lýsti yfir áhyggjum sínum af þróuninni.
Þjóðverjar svara því hins vegar þannig til að þeir vilji allls ekki fórna samkeppnishæfni sinni. Þá sagði Mario Draghi, bankastjóri Evrópska seðlabankans, í vikunni að leiðin til þess að styrkja þá sem standa höllum fæti væri ekki sú að veikja hina sterku.