Stýrivextir á evrusvæðinu gætu lækkað enn frekar á næstu misserum, þrátt fyrir að þeir hafi aldrei verið lægri. Þetta segir Joerg Asmussen, stjórnarmaður hjá evrópska seðlabankanum. Hann segir að máli skipti hvernig verðbólgan muni þróast og að bankinn sé ekki enn kominn á endastöð varðandi hvað sé hægt að gera með vexti sem stýritæki.
Í síðustu viku lækkaði bankinn vexti óvænt niður í 0,25%, en þeir hafa aldrei verið lægri. Í gegnum tíðina hefur seðlabankinn verið duglegur að benda á að það að gera stýrivexti neikvæða gæti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér. Við slíkar aðstæður þurfa bankar að greiða seðlabankanum fyrir að geyma peninga inn á reikningi hans. Mario Draghi, seðlabankastjóri, hefur aftur á móti upp á síðkastið ítrekað sagt að bankinn sé tæknilega tilbúinn að taka slíkt skref.
Þegar Asmussen var spurður út í hvort bankinn væri að íhuga að fara þá leið sagði hann að gæta þyrfti fyllst varúðar þegar rætt væri um slíkt, en að hann gæti ekki útilokað neitt í þeim efnum. Hann benti þó á að það hefðu ekki allir meðlimir seðlabankans verið samþykkir fyrir síðustu lækkun.