Landsvirkjun er langt komin í viðræðum við fjóra aðila í orkufrekum iðnaði um sölu á allri umframorku sem fyrirtækið ræður yfir. „Við höfum bara ekki skuldbundið okkur enn til orkuafhendingar,“ segir Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar, í viðtali við Morgunblaðið.
Að sögn Björgvins er Landsvirkjun að bíða eftir því að þessir fjárfestar komist á það stig í sínum verkefnum að rétt sé að taka það skref. „Á meðan erum við í viðræðum við á annan tug aðila um sölu á enn meiri orku. Markmiðið er að fá þá í samkeppni um að klára sín verkefni sem fyrst og tryggja sér raforku frá Landsvirkjun – það er ekki til orka í dag fyrir þá sem koma síðastir.“
Aðspurður segir hann að um sé að ræða iðnaðarverkefni sem eru smærri í sniðum – á bilinu 20-80 megavött – en við höfum að jafnaði séð fram til þessa hérlendis. Það þjóni hins vegar ekki hagsmunum þeirra að vinna að þessum verkefnum fyrir opnum tjöldum.