Á síðustu sex árum hafa þeir Þórður Erlingsson og Gunnar Búason byggt upp margmilljarða fyrirtæki í Svíþjóð, en nýlega var 70% hlutur í því seldur fyrir 3,9 milljarða. Fyrirtækið, sem heitir Inexchange, hannaði kerfi sem gerir fyrirtækjum og stofnunum auðveldara um vik að senda rafræna reikninga og spara þar með bæði kostnað og pappír. Þórður segir í samtali við mbl.is að fyrirtæki hafi getað sparað sér allt að tvo þriðju við innheimtukostnað með þessari aðferð.
Árið 2009, þegar Inexchange var tveggja ára, var það valið meðal áhugaverðustu tæknifyrirtækja Svíþjóðar. Núna fjórum árum seinna vann það önnur verðlaun til viðbótar sem mest vaxandi tæknifyrirtæki landsins, en Inexchange hefur stækkað um 4.172% á fimm árum.
Inexchange var stofnað árið 2007, en það er stofnað á grunni fyrirtækisins Asitis sem Þórður stofnaði árið 2002 og er hugbúnaðarfyrirtæki sem sérhæfir sig í lausnum fyrir banka. Hann segir að árin áður en Inexchange var stofnað hafi hann verið að vinna að öðrum hugmyndum sem hann hafi tekið út úr fyrirtækinu og stofnað hið nýja félag ásamt Gunnari Búasyni, sem var þá doktorsnemi í Svíþjóð.
Grunnhugmynd þessa verkefnis var að athuga hvort hægt væri að tengja öll viðskiptamannakerfi fyrirtækja og ná út úr þeim gögnum í formi reikninga án þess að þurfa að aðlaga einstaka kerfi. Þeim tókst ætlunarverkið og úr varð Inexchange kerfið.
Þórður segir að á þessum tíma hafi öll rafræn viðskipti og reikningar verið á milli einstakra fyrirtækja, en til þessi þurfti að setja upp dýrar hugbúnaðarlausnir fyrir hvert og eitt fyrirtæki. Þeirra hugmynd var að einfalda þetta til muna. „Við ákváðum að byggja kerfi sem virkar þannig að þegar fyrirtæki tengist því gætu þau sent og tekið á móti reikningum frá öllum,“ segir Þórður.
Kostnaðurinn við rafræna kerfið er aðeins brot af því sem kostar að senda út venjulega reikninga og segir Þórður að fyrir minnstu fyrirtækin sé þjónustan ókeypis, en fyrirtæki sem sendi frá 100 upp í 5000 reikninga á ári borgi um tvö þúsund íslenskar krónur á mánuði. Þá borgi þau fyrirtæki sem sendi hundruð þúsunda eða milljónir reikninga ákveðið gjald fyrir hvern reikning. Það gjald er um einn þriðji af kostnaði við frímerki, þannig að ljóst er að rafrænu reikningarnir geta sparað miklar fjárhæðir.
Segir Þórður að mörg fyrirtæki hafi náð að koma hlutfalli rafrænna reikninga upp í allt að 90% og það spari þeim rúmlega tvo þriðju við innheimtukostnað. Þá sé alveg eftir að taka með í reikninginn hversu mikill umhverfissparnaður sé af þessu. Hann segir að starfsmenn fyrirtækisins hafi einhvern tímann reiknað út að í heild væru um 1,3 milljarður reikninga sendir árlega í Svíþjóð og að heildarfjöldi blaðsíðna sé um 6 milljarðar. Þetta gera um 280 hektara af skógi og segist hann vonast til þess að nýja kerfið geti farið langt með að vinna á þessari miklu notkun.
Meðal stærstu viðskiptavina Inexchange eru sveitarfélög í Svíþjóð, en Þórður segir að í dag sé búið að semja við 160 af 290 sveitarfélögum í landinu. „Það var bæði heppni og góð ákvörðun að byrja á sveitarfélögunum,“ segir Þórður, en þau voru að mörgu leiti komin framarlega í að tileinka sér rafræna reikninga. Það hafi einnig hjálpað mikið til við að ná til annarra fyrirtækja og stækka kökuna. Í dag þjónusti þeir meðal annars sænska ríkið og margar ríkisstofnanir og í heild eru viðskiptavinir orðnir fleiri en 60 þúsund.
Þrátt fyrir gífurlegan vöxt síðustu ár segir Þórður að fyrirtækið muni stækka enn frekar á næstu árum. Nýlega keypti norski viðskiptakerfaframleiðandinn Visma 70% hlut í fyrirtækinu fyrir 3,9 milljarða íslenskra króna. Ætlar fyrirtækið að setja Inexchange kerfið inn í allan sinn hugbúnað, en það þýðir að á næstu árum mun kerfið ná til rúmlega 340 þúsund fleiri fyrirtækja.
Miðað við kaupverðið má ætla að heildarverðmæti fyrirtækisins liggi í kringum 5,5 milljarða, en í dag eiga þeir Þórður og Gunnar, auk annarrar starfsmanna fyrirtækisins þau 30% sem Visma keypti ekki.
Þórður segir að þeir félagar hafi einnig viljað koma þessu kerfi í gagnið hér á landi og ná þannig að lækka mikið innheimtukostnað, miðað við það sem nú er. Það hafi þó gengið treglega, meðal annars vegna þess að menn hér á landi ættu erfitt með að koma sér saman um hvaða staðla eigi að nota varðandi reikningana. Þrátt fyrir það hafi nokkur sveitarfélög og fyrirtæki tekið upp kerfið og náð sparnaði á þessu sviði.
Ef allt gengur að óskum gerir hann ráð fyrir að kerfið muni ná almennri dreifingu hér á landi á næstu fimm árum og segir hann það ekki spurningu hvort heldur hvenær greiðsluseðlakerfið deyi út. „Greiðsluseðlar eru tímaskekkja og flest fyrirtæki neita að borga seðil- og innheimtugjöldin.“ Hann segist gera ráð fyrir því að þegar grunnkerfið komist á laggirnar hér muni flestir færa sig yfir í það, enda sé núverandi kerfi bæði dýrt og bjóði ekki upp á jafn mikinn sveigjanleika og tengingu við viðskiptamannakerfi og krafan sé um í dag.