Byggðu upp milljarða fyrirtæki í Svíþjóð

Þórður Erlingsson er annar stofnenda Inexchange, en vöxtur fyrirtækisins hefur …
Þórður Erlingsson er annar stofnenda Inexchange, en vöxtur fyrirtækisins hefur verið ævintýralegur síðustu ár.

Á síðustu sex árum hafa þeir Þórður Erl­ings­son og Gunn­ar Búa­son byggt upp marg­millj­arða fyr­ir­tæki í Svíþjóð, en ný­lega var 70% hlut­ur í því seld­ur fyr­ir 3,9 millj­arða. Fyr­ir­tækið, sem heit­ir Inexchange, hannaði kerfi sem ger­ir fyr­ir­tækj­um og stofn­un­um auðveld­ara um vik að senda ra­f­ræna reikn­inga og spara þar með bæði kostnað og papp­ír. Þórður seg­ir í sam­tali við mbl.is að fyr­ir­tæki hafi getað sparað sér allt að tvo þriðju við inn­heimtu­kostnað með þess­ari aðferð.

Vaxið um 4.172% á fimm árum

Árið 2009, þegar Inexchange var tveggja ára, var það valið meðal áhuga­verðustu tæknifyr­ir­tækja Svíþjóðar. Núna fjór­um árum seinna vann það önn­ur verðlaun til viðbót­ar sem mest vax­andi tæknifyr­ir­tæki lands­ins, en Inexchange hef­ur stækkað um 4.172% á fimm árum.

Inexchange var stofnað árið 2007, en það er stofnað á grunni fyr­ir­tæk­is­ins Asit­is sem Þórður stofnaði árið 2002 og er hug­búnaðarfyr­ir­tæki sem sér­hæf­ir sig í lausn­um fyr­ir banka. Hann seg­ir að árin áður en Inexchange var stofnað hafi hann verið að vinna að öðrum hug­mynd­um sem hann hafi tekið út úr fyr­ir­tæk­inu og stofnað hið nýja fé­lag ásamt Gunn­ari Búa­syni, sem var þá doktorsnemi í Svíþjóð. 

Virk­ar með öll­um viðskipta­manna­kerf­um

Grunn­hug­mynd þessa verk­efn­is var að at­huga hvort hægt væri að tengja öll viðskipta­manna­kerfi fyr­ir­tækja og ná út úr þeim gögn­um í formi reikn­inga án þess að þurfa að aðlaga ein­staka kerfi. Þeim tókst ætl­un­ar­verkið og úr varð Inexchange kerfið.

Þórður seg­ir að á þess­um tíma hafi öll ra­f­ræn viðskipti og reikn­ing­ar verið á milli ein­stakra fyr­ir­tækja, en til þessi þurfti að setja upp dýr­ar hug­búnaðarlausn­ir fyr­ir hvert og eitt fyr­ir­tæki. Þeirra hug­mynd var að ein­falda þetta til muna. „Við ákváðum að byggja kerfi sem virk­ar þannig að þegar fyr­ir­tæki teng­ist því gætu þau sent og tekið á móti reikn­ing­um frá öll­um,“ seg­ir Þórður.

Allt að 90% reikn­inga á ra­f­rænu formi

Kostnaður­inn við ra­f­ræna kerfið er aðeins brot af því sem kost­ar að senda út venju­lega reikn­inga og seg­ir Þórður að fyr­ir minnstu fyr­ir­tæk­in sé þjón­ust­an ókeyp­is, en fyr­ir­tæki sem sendi frá 100 upp í 5000 reikn­inga á ári borgi um tvö þúsund ís­lensk­ar krón­ur á mánuði. Þá borgi þau fyr­ir­tæki sem sendi hundruð þúsunda eða millj­ón­ir reikn­inga ákveðið gjald fyr­ir hvern reikn­ing. Það gjald er um einn þriðji af kostnaði við frí­merki, þannig að ljóst er að ra­f­rænu reikn­ing­arn­ir geta sparað mikl­ar fjár­hæðir.

Seg­ir Þórður að mörg fyr­ir­tæki hafi náð að koma hlut­falli ra­f­rænna reikn­inga upp í allt að 90% og það spari þeim rúm­lega tvo þriðju við inn­heimtu­kostnað. Þá sé al­veg eft­ir að taka með í reikn­ing­inn hversu mik­ill um­hverf­is­sparnaður sé af þessu. Hann seg­ir að starfs­menn fyr­ir­tæk­is­ins hafi ein­hvern tím­ann reiknað út að í heild væru um 1,3 millj­arður reikn­inga send­ir ár­lega í Svíþjóð og að heild­ar­fjöldi blaðsíðna sé um 6 millj­arðar. Þetta gera um 280 hekt­ara af skógi og seg­ist hann von­ast til þess að nýja kerfið geti farið langt með að vinna á þess­ari miklu notk­un.

60 þúsund not­end­ur

Meðal stærstu viðskipta­vina Inexchange eru sveit­ar­fé­lög í Svíþjóð, en Þórður seg­ir að í dag sé búið að semja við 160 af 290 sveit­ar­fé­lög­um í land­inu. „Það var bæði heppni og góð ákvörðun að byrja á sveit­ar­fé­lög­un­um,“ seg­ir Þórður, en þau voru að mörgu leiti kom­in framar­lega í að til­einka sér ra­f­ræna reikn­inga. Það hafi einnig hjálpað mikið til við að ná til annarra fyr­ir­tækja og stækka kök­una. Í dag þjónusti þeir meðal ann­ars sænska ríkið og marg­ar rík­is­stofn­an­ir og í heild eru viðskipta­vin­ir orðnir fleiri en 60 þúsund.

Keyptu hlut í fyr­ir­tæk­inu fyr­ir 3,9 millj­arða

Þrátt fyr­ir gíf­ur­leg­an vöxt síðustu ár seg­ir Þórður að fyr­ir­tækið muni stækka enn frek­ar á næstu árum. Ný­lega keypti norski viðskipta­kerfa­fram­leiðand­inn Visma 70% hlut í fyr­ir­tæk­inu fyr­ir 3,9 millj­arða ís­lenskra króna. Ætlar fyr­ir­tækið að setja Inexchange kerfið inn í all­an sinn hug­búnað, en það þýðir að á næstu árum mun kerfið ná til rúm­lega 340 þúsund fleiri fyr­ir­tækja.

Miðað við kaup­verðið má ætla að heild­ar­verðmæti fyr­ir­tæk­is­ins liggi í kring­um 5,5 millj­arða, en í dag eiga þeir Þórður og Gunn­ar, auk annarr­ar starfs­manna fyr­ir­tæk­is­ins þau 30% sem Visma keypti ekki.

Seg­ir greiðslu­seðla vera dýra tíma­skekkju 

Þórður seg­ir að þeir fé­lag­ar hafi einnig viljað koma þessu kerfi í gagnið hér á landi og ná þannig að lækka mikið inn­heimtu­kostnað, miðað við það sem nú er. Það hafi þó gengið treg­lega, meðal ann­ars vegna þess að menn hér á landi ættu erfitt með að koma sér sam­an um hvaða staðla eigi að nota varðandi reikn­ing­ana. Þrátt fyr­ir það hafi nokk­ur sveit­ar­fé­lög og fyr­ir­tæki tekið upp kerfið og náð sparnaði á þessu sviði.

Ef allt geng­ur að ósk­um ger­ir hann ráð fyr­ir að kerfið muni ná al­mennri dreif­ingu hér á landi á næstu fimm árum og seg­ir hann það ekki spurn­ingu hvort held­ur hvenær greiðslu­seðlakerfið deyi út. „Greiðslu­seðlar eru tíma­skekkja og flest fyr­ir­tæki neita að borga seðil- og inn­heim­tu­gjöld­in.“ Hann seg­ist gera ráð fyr­ir því að þegar grunn­kerfið kom­ist á lagg­irn­ar hér muni flest­ir færa sig yfir í það, enda sé nú­ver­andi kerfi bæði dýrt og bjóði ekki upp á jafn mik­inn sveigj­an­leika og teng­ingu við viðskipta­manna­kerfi og kraf­an sé um í dag.

Gunnar Búason hefur ásamt Þórði byggt Inexchange fyrirtækið upp síðustu …
Gunn­ar Búa­son hef­ur ásamt Þórði byggt Inexchange fyr­ir­tækið upp síðustu 6 ár.
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK