Þorsteinn Már: „Þetta mál er tilbúningur“

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. mbl.is/Kristinn

„Þetta mál er tilbúningur,“ sagði Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, í útvarpsþættinum Á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun um rannsókn Seðlabanka Íslands á því hvort fyrirtækið hefði selt fisk á undirverði til tengdra fyrirtækja erlendis og ekki skilað heim gjaldeyri. „Þeir eru búnir að vera að leita leiða til að finna eitthvað.“

Í síðustu viku mætti hann til skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara og sendi í kjölfarið bréf til starfsmanna sinna. Sagði hann rannsókn Seðlabanka Íslands á viðskiptum Samherja m.a. beinast að því hvort fyrirtækið hafi brotið reglur um skilaskyldu á gjaldeyri. 

Þorsteinn Már sagði í morgun að um tuttugu mánuðir væru liðnir frá því að húsleit var gerð í húsakynnum Samherja vegna málsins. Hann sagði málið ekki aðeins snúast um mannorð sitt. Hjá fyrirtækinu starfi fjöldi fólks sem leggi sig fram við að gera hlutina vel og rétt. 

Það hafi því verið erfitt að bíða í tuttugu mánuði. „Að þurfa að bíða í tuttugu mánuði eftir því að vita hvað maður hafi gert, maður er hálf varnarlaus og í raun finnst manni bara að við séum hálf réttlaus gagnvart Seðlabankanum í þessu máli.“

4.800% skekkja hjá Seðlabankanum

Hann segir að stuttan tíma hafi tekið að komast að því að tölurnar sem lagðar voru til grundvallar húsleitarheimild Seðlabankans hafi verið rangar. Það hafi héraðsdómur og hæstiréttur staðfest. „Skekkjan nam 4.800% hjá Seðlabanka Íslands,“ sagði Þorsteinn Már. 

Hann sagði að málið snérist m.a. um sölu á 5 tonnum af bleikju til Þýskalands. Verðið hafi verið borið saman við verð sem fæst fyrir sölu á bleikju á Bandaríkjamarkað sem hafi verið byggður upp á mörgum árum. Í Þýskalandi hafi hins vegar verið reynt að byggja upp nýjan markað. „Þetta mál er tilbúningur,“ sagði Þorsteinn Már. „Hitt málið er það að maður hefur á tilfinningunni að þeir séu búnir að vera að leita leiða til að finna eitthvað, þess vegna koma þeir með það núna að fyrirtæki sem Samherji á erlendis séu allt í einu íslensk. Ég veit ekki hvað þetta þýðir og á hvaða vegferð Seðlabankinn er.

Hann sagðist telja að þetta hlyti að valda ákveðnu uppnámi hjá öðrum íslenskum fyrirtækjum sem eiga fyrirtæki erlendis, s.s. Marel, Össur og Icelandair. 

„Á sama hátt hlýtur það að vera næsta mál hjá Seðlabankanum að taka þau fyrirtæki sem skilanefndir eða slitastjórnir ráða yfir.“

Þorsteinn fór yfir ýmis mál með stjóranda þáttarins, m.a. veiðigjöldin.

- Getur sjávarútvegurinn borgað meira til ríkisins?

„Við erum því miður alltaf að rífast um og færa samkeppnisaðilum okkar vopn í hendur,“ sagði Þorsteinn. „Sjávarútvegurinn greiðir veiðigjald sem ég held að eigi að vera hóflegt. En hins vegar eru gríðarleg umsvif í kringum sjávarútveginn. Til að fylgja öðrum þjóðum þarf að fjárfesta mikið í sjávarútvegi og í markaðsstarfi, mun meira en hefur verið gert síðustu ár. Samkeppnin er að harðna mjög mikið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK