Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands var sammála um að halda vöxtum bankans óbreyttum á síðasta vaxtaákvörðunardegi. Tveir nefndarmenn lýstu þó yfir vaxandi áhyggjum af því hversu þrálát verðbólga og verðbólguvæntingar væru. Þeir studdu hins vegar tillögu seðlabankastjóra um að halda vöxtum óbreyttum þar sem þeir töldu rétt að bíða þar til að niðurstaða kjarasamninga kæmi í ljós.
Nefndarmenn voru sammála um að laust taumhald peningastefnunnar hefði stutt við efnahagsbatann á undanförnum misserum. Áfram gilti að eftir því sem slakinn hyrfi úr þjóðarbúskapnum væri nauðsynlegt að slaki peningastefnunnar hyrfi einnig.
Að hve miklu leyti aðlögunin ætti sér stað með breytingum á nafnvöxtum Seðlabankans færi eftir framvindu verðbólgunnar, sem myndi ráðast að miklu leyti af þróun launa og gengishreyfingum krónunnar Þetta kemur fram í fundargerð nefndarinnar sem birt var í gær.
Peningastefnunefndin ræddi á fundi sínum nýlega verðbólguþróun og -horfur. Verðbólga hefur minnkað á ný eftir að hafa aukist nokkuð á þriðja fjórðungi ársins.
Verðbólguhorfur samkvæmt spá Seðlabankans eru þó í stórum dráttum svipaðar og gert var ráð fyrir í ágúst og er ekki gert ráð fyrir að verðbólga hnígi að markmiði fyrr en undir lok árs 2015.
Hjöðnun verðbólgunnar of hæg
Að mati nefndarinnar verður hjöðnun verðbólgunnar samkvæmt spánni illásættanlega hæg. Einnig sé ljóst að verðbólga verði sem fyrr næm fyrir þróun gengis og launa á næstu misserum. Verðbólguþrýstingur sé jafnframt töluverður, undirliggjandi verðbólga enn yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans og verðbólguvæntingar hafi lítið breyst.
Nefndin taldi að nú um stundir skipti óvissa vegna komandi kjarasamninga mestu máli. Í spá Seðlabankans væri sem fyrr byggt á sögulegri reynslu og gert ráð fyrir launahækkunum í kjarasamningum sem væru umfram það sem samrýmist verðbólgumarkmiðinu, enda fæli hún í sér að launakostnaður á framleidda einingu myndi aukast um 4½% í ár og um 3,7% á ári að meðaltali á spátímanum.
Eins og á síðasta fundi nefndarinnar var nefndin sammála um að ef launahækkanir yrðu í samræmi við spána væri líklegt að nafnvextir bankans myndu að óbreyttu verða hækkaðir í framhaldinu, sérstaklega ef slakinn í þjóðarbúskapnum héldi áfram að minnka. Launahækkanir umfram það myndu auka líkur á vaxtahækkunum enn frekar.
Yrðu launahækkanir hins vegar í samræmi við verðbólgumarkmið myndi verðbólga að öðru óbreyttu hjaðna hraðar en gert er ráð fyrir í spánni og vextir verða lægri en ella. Nefndin taldi jafnframt að stefnan í ríkisfjármálum myndi hafa áhrif á aðhaldsstig peningastefnunnar.
Því væri mikilvægt að aðhald í ríkisfjármálum yrði að minnsta kosti jafnmikið eftir meðferð Alþingis og boðað er í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2014.