Dominos pizza hefur á síðustu tveimur árum endurskipulagt reksturinn og farið í sölu á netinu og í gegnum app fyrirtækisins. Þetta hefur skilað því að í ár er áætlað að um 450 þúsund pantanir fari í gegnum vefsíðuna og um 100 þúsund pantanir gegnum appið. Heildarveltan vegna þessa er um 1,3 milljarður. Þetta segir Magnús Hafliðason, markaðsstjóri fyrirtækisins, en hann hélt fyrirlestur um vörumerkjabreytingu fyrirtækisins í hátíðasal Háskóla Íslands í dag.
Fyrir tveimur árum ákváðu stjórnendur fyrirtækisins að fara í gegnum reksturinn og voru kynningarmál tekin í gegn. Magnús segir að vörumerkið hafi verið endurmarkað og þeir hafi gert breytingar á vörunni sem hafi staðið óbreytt í 18 ár þar á undan. Meðal annars hafi verið bætt við litina, en áður voru bara hvítur, rauður og blár notaðir í öllu kynningarefni fyrirtækisins.
Viðamesta breytingin var þó þegar sala hófst á netinu og útgáfa á appinu í fyrra. Magnús segir að báðar þessar þjónustur hafi strax fengið góðar viðtökur og í dag gerir hann ráð fyrir því að fyrirtækið sé með eitt söluhæsta appið á Íslandi. Hann segir að hægst hafi á skráningu nýrra notenda, en að notkunin hafi aftur á móti aukist mikið. Hann segir á milli átta til tíu þúsund pantanir koma gegnum appið í hverjum mánuði, en það skilar sölu upp á 300 til 400 milljónir á ári.
Magnús segir að salan á netinu og appinu sé í dag tæplega 40%, en hann áætlar að í lok næsta árs verði hlutfallið komið nálægt 60%. Með því verði Dominos orðið netfyrirtæki sem selur pítsur, en ekki pítsufyrirtæki sem selur gegnum netið.