Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Plain Vanilla fékk mjög góða fjárfesta á fyrstu stigum fjármögnunar sem gerðu þeim kleift að hlúa að upplifun notenda þangað til félagið væri komið á lygnan sjó í stað þess að ráðast strax í uppbyggingu tekjumódels. Þetta segir Guðjón Már Guðjónsson, sem oftast er kenndur við fyrirtækið OZ og hefur meiri reynslu af tæknimarkaðinum í Bandaríkjunum en flestir Íslendingar. Guðjón ræddi við mbl.is um stöðu fyrirtækja í leikja- og hugbúnaðargerð sem eru á sama stað og Plain Vanilla og möguleika og áskoranir í Kísildalnum. Segist hann áætla að fyrirtæki á þessum stað þurfi að bæta við sig um 100 starfsmönnum á næstu misserum.
Guðjón segir að búast megi við því að fjárfestar setji á bilinu 1,5 til 3 milljarða í næstu fjármögnun, en verðmat fyrirtækisins gæti í framhaldinu legið á bilinu 6 til 30 milljarðar. Hann segir að eftir árangurinn síðustu vikurnar séu allir stærstu nýsköpunar- og tæknisjóðirnir í Bandaríkjunum að fylgjast með fyrirtækinu og horfi nú til þess að ná að fjárfesta í því.
Bent hefur verið á það að Plain Vanilla hafi litlar sem engar tekjur þessa stundina, þannig að þrátt fyrir að vera með einn vinsælasta snjallsímaleik heims, þá sé tekjuhliðin ekki upp á marga fiska. Guðjón segir þetta oft mæta skilningsleysi, en að huga þurfi fyrst að uppbyggingu notendakjarnans áður en horft sé á tekjumódelið. Nefnir hann sem dæmi að Google, Facebook og Yahoo! hafi öll fyrst byggt upp stóran notendagrunn áður en farið var að skoða með auglýsingar. Í dag séu þetta aftur á móti mjög stöndug fyrirtæki á auglýsingamarkaði og skili miklum tekjum.
Það vakti nokkra eftirtekt þegar sjóðurinn Sequoia Capital kom inn sem fjárfestir hjá Plain Vanilla á lokametrunum fyrir útgáfu QuizUp leiksins. Guðjón segir þetta vera einn allra flottasta sjóðinn í Kísildalnum, en að fleiri stórir fjárfestar séu einnig að skoða að koma að næstu fjármögnun. „Það er vitað að allir helstu sjóðir eru að skoða leiðir til að komast inn í fyrirtækið og það er mikill áhugi á fjárfestingaþátttöku,“ segir Guðjón.
Í dag hefur fyrirtækinu verið lagt til 5,6 milljónir dala í fjárfestingar, en það eru um 730 milljónir íslenskra króna. Hann telur næsta skref fjármögnunar verða þokkalega stórt og bendir á að flest fyrirtæki sem hægt er að bera saman við Plain Vanilla hafi fengið um 1,5 til 3 milljarða á næsta skrefi fjármögnunar, samkvæmt gagnagrunnum eins og Crunchbase. „Það telst þokkalega stór fjárfesting og eðlilegt næsta skref, þegar miðað er við sambærileg fyrirtæki í Kísildal,“ segir Guðjón.
Hann telur fyrirtækið þurfa að stækka hratt á næstu misserum og að það verði helsta áskorun stjórnendanna. Þannig telur hann að bæta megi 100 starfsmönnum við fyrirtæki á þessum stað á næstunni fyrir þau verkefni sem liggi fyrir. Það geti aftur á móti reynst erfitt hér á landi vegna smæðar markaðarins. Guðjón segir að leiðin erlendis sé oftast að fyrirtæki kaupi upp önnur minni fyrirtæki og fái þannig starfsmennina yfir til sín. Þannig fáist oft mikil reynsla og þekking t.d. við að koma hugbúnaði yfir á önnur stýrikerfi. Hér á landi sé aftur á móti mjög erfitt að fara þessa leið, enda sé umhverfið ekki jafn stórt hér.
Í ljósi þessa vandamáls telur Guðjón ekki ólíklegt að fjölga þurfi starfsstöðvum erlendis, en það flæki reksturinn óneitanlega. Það sé þó ekki víst að um annað sé að ræða, enda gæti það reynst þrautin þyngri að finna hundrað manns sem væru menntaðir og lausir í þetta verkefni hér á landi.
Guðjón segir að mistök eigi sér alltaf stað hjá nýsköpunarfyrirtækjum, bæði varðandi starfsmannamál og þróun. Sé aftur á móti haldið rétt á spöðunum gagnist slík mistök fyrirtækjum til lengri tíma. „Ég held að helsta áskorunin sé að stækka eins hratt og þeir geta. Það verða gerð mistök á leiðinni, en það eru vaxtaverkir sem koma alltaf", segir Guðjón. Hann er bjartsýnn á að stjórnendum fyrirtækisins takist að fara með það gegnum stækkunarferlið.
Aðspurður um verðmæti fyrirtækja á þessum stað segir Guðjón erfitt að meta það, þar spili fjölmargir þættir inn í. Þegar komi að öðru stigi fjármögnunarinnar sé þó oft gert ráð fyrir því að verðmæti þeirra hluta sem bætast við séu á bilinu 10-25% af verðmæti fyrirtækisins. Ef það er uppreiknað miðað við viðbótarfjármagn upp á 1,5 til 3 milljarða má áætla að verðmæti fyrirtækisins sé á bilinu 6 til 30 milljarðar. Guðjón tekur þó fram að þarna sé hann aðeins að miða við almennar hugmyndir í Kísildalnum um verðmæti fyrirtækja á þessum stað í uppbyggingarferli, en ekki sérstaklega um Plain Vanilla. Hann segir að enginn einn tími sé réttari en annar fyrir næsta útboð og að það þurfi að henta fyrirtækjunum sjálfum.