Í ljósi aukins lífaldurs er ljóst að hækka þarf lífeyrisaldur, skerða réttindi eða hækka iðgjöld. Þetta segir Björn Z. Ásgrímsson, sérfræðingur á greiningarsviði Fjármálaeftirlitsins í nýjasta hefti Fjármála, vefrits eftirlitsins. Hann segir að áfallnar skuldbindingar lífeyrissjóðanna hafi hækkað um nærri 30 milljarða vegna hækkaðs lífaldurs um 0,4 ár við síðustu útreikninga. Þar sé þó ekki tekið mið af væntingum um hækkaðan lífaldur, sem flest nágrannaríki okkar reikni með, en Björn segir að samkvæmt spám Hagstofunnar muni aldur á næstu 40 árum hækka um 5-7 ár.
Björn Segir að ef þessi spá rætist megi gera ráð fyrir að áfallnar skuldbindingar lífeyrissjóðanna aukist um nærri 200 milljarða króna. Við þessa forsendubreytingu myndi núverandi halli á áfallinni stöðu, sem í dag nemur um 550 milljörðum króna, verða nálægt 750 milljörðum.
Hann segir að bregðast verði við þessum með skerðingu réttinda, hækkun lífeyrisaldurs eða hækkun iðgjalda. Telur hann að skerðing réttinda verði ekki vinsæl, en að hjá henni verði ekki komist. Þá telur hann eðlilegt að hækka lífeyrisaldurinn um tvö til fjögur ár í þrepum og gera lífeyristöku sveigjanlegri.
Vefritið Fjármál má lesa í heild hér.