Mikil uppbygging er framundan á Vatnsmýrasvæðinu og umhverfis það á næstunni samkvæmt nýsamþykktu aðalskipulagi Reykjavíkur. Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, segir að hægt sé að gera Vatnsmýrina að okkar eigin Danmörku, sem sé flöt með örar samgöngur og aðstöðu fyrir góða umferð hjólafólks og þeirra sem gangandi eru. Sagði hann jafnvel möguleika á lestum þar þegar litið er til lengri tíma. Þetta kom fram á fundi um framtíð og tækifæri í Vatnsmýrinni sem haldinn var á Hótel Natura í dag.
Dagur sagði að meðal skrefa sem yrðu tekin á næstunni væri uppbygging á um 800 íbúðum á 230 þúsund fermetrum í Skerjafirðinum, íbúðir meðfram Öskjuhlíðinni, norður af Háskólanum í Reykjavík og uppbygging á Hlíðarendareitnum. Þá sagðist hann vonast til þess að 87 þúsund fermetra svæði sem Landsspítalinn á við Hringbrautina verði nýtt sem fyrst og farið verði í uppbyggingu nýs spítala.
Sagði hann að mikil tækifæri lægju í því að draga þekkingarfyrirtæki á heilbrigðissviði að þeim heilbrigðisklasa sem væri að byggjast upp á svæðinu. Það myndi auka möguleikann á því að fá erlent rannsóknarfjármagn hingað til lands. „Við munum ekki sjá fulla möguleika stofnananna fyrr en þær eru komnar á einn stað,“ sagði Dagur.
Dagur rifjaði upp á fundinum þegar hann var ásamt öðrum borgarfulltrúum að sannfæra stjórnendur Háskólans í Reykjavík um að byggja skólann við Nauthólsvík. Sagði hann að aðalatriðið sem fólk hefði keypt við uppbyggingaráformin væru hugmyndir um að innan tíðar væri hægt að byggja upp 20 til 30 þúsund manna fræði- og rannsóknarsamfélag í þekkingariðnaði. Núna nokkrum árum seinna væri þessi framtíðarsýn langt á veg komin og alltaf styttist í að hún yrði að veruleika.