Þegar bankakerfi og innlendir hagsmunir efnahagslífsins eru orðin of tengd í litlum hagkerfum hefur það bóluáhrif þar sem erlendir aðilar telja að ríki muni ekki leyfa bankakerfinu að hrynja. Þetta segir Patrick Honohan, seðlabankastjóri Írlands, en hann hélt fyrirlestur á fundi Seðlabanka Íslands í Hörpunni í morgun. Patrick sagði að hér á landi hefðu innlendir bankar verið búnir að metta markaðinn og hafi því leitað út á við og hafið lánveitingar erlendis. Á sama tíma hafi erlendar fjármálastofnanir séð tækifæri að lána hingað til lands þar sem þeir töldu að bankakerfið og ríkisvaldið væru það þéttofin að bankakerfinu yrði ekki leyft að hrynja.
Í erindi sínu sagði Patrick hér á landi hefði varnarkerfi milli innlenda hluta bankakerfisins og þess erlenda ekki verið til staðar. Á Írlandi hefði aftur á móti verið passað upp á þessir tveir hlutar væru ekki alveg samtengdir og því hefði verið hægt að setja peninga í að bjarga írsku bönkunum án þess að fé færi í að bjarga erlendum bönkum. Þetta hafi varið innlenda aðila meðan erlendir aðilar hefðu verið einir á báti. Sagði Patrick að þýsk og bresk stjórnvöld hefðu séð um að bjarga bönkum sem væru frá þeim ríkjum en væru starfandi á Írlandi.
Patrick benti á að þetta varnarkerfi hefði ekki verið til staðar á Kýpur, þar sem nú væru komnar hömlur á fjármagnsflutninga. Sagði hann að innlendir aðilar hefðu tapað fjármunum, þar sem þeir hefðu ekki verið varðir á sama hátt og Írar. Hann sagði leið Íslendinga aftur á móti hafa verið mjög góða, en efaðist um að hún hefði gengið upp á Írlandi eða öðrum stærri löndum.
Á fundinum var Patrick spurður út í hvað hann hefði viljað gera öðruvísi nú fimm árum eftir að fjármálakrísan hófst. Sagði hann að allir teldu að aðferð Íslendinga að skipta bönkunum upp í góða og slæma banka væri góð. Ef hann ætti að benda á eitt atriði sem betur hefði mátt fara á Írlandi væri það væntanlega tengt þessari aðferð Íslendinga, það er að láta tvo af þeim bönkum sem verst stóðu að fara á hausinn og gera þá upp. Sagði hann að það hefði væntanlega getað sparað Írum um helming þess sem hrunið kostaði þá.
Hann tók þó fram að erfitt hefði verið fyrir stjórnmálamenn að sjá fyrir þann mikla kostnað sem kæmi til vegna björgunaraðgerðanna og því væri ekki hægt að tala um mistök þeirra þegar rýnt væri í hvernig þeir brugðust við áföllunum.