Auglýsing tryggingafélagsins Sjóvá með kettinum Jóa í aðalhlutverki vann í vikunni alþjóðleg verðlaun, en auglýsingastofan Hvíta húsið og Saga Film eiga heiðurinn að gerð hennar. Um er að ræða bronsverðlaun EPICA sem er alþjóðleg samkeppni á sviði auglýsingagerðar og taka auglýsingastofur víðsvegar að úr heiminum þátt í henni, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Sjóvá.
EPICA hefur þá sérstöðu að í dómnefnd sitja blaðamenn fagblaða um auglýsinga- og markaðsmál frá öllum heimshornum. Auglýsing Sjóvá fékk verðlaun í flokki fjármálaþjónustu en þar keppa m.a. bankar og tryggingafélög.
Auglýsingin fjallar um hversu lífið er ótrúlegt. Í henni er Kötturinn Jói einn heima. Honum leiðist þangað til að hann rekst á hnykil og þá byrjar leikurinn. Þrír af reyndustu starfsmönnum Hvíta hússins, þau Skafti, Begga og Toggi, eiga hugmyndina að auglýsingunni. „Þrátt fyrir að hugmyndin sé einföld og heillandi mátti litlu muna að hún endaði ofan í skúffu vegna efasemda um hvort hún væri framkvæmanleg,“ er haft eftir Skafta í fréttatilkynningu. Begga útskýrir að þau hafi haft sínar efasemdir um samstarfið við kettina: „Eins og frægt er orðið þá er erfitt að smala köttum og því höfðum við ákveðnar efasemdir. Með útsjónasemi, þolinmæði og trú á gæði hugmyndinnarinnar tókst þó að skila Jóa á sjónvarpsskjái landsmanna og verðlaunum upp í hillu.“
Þau, Skafti Begga og Toggi, segja að Saga Film og leikstjórinn Guðjón Jónsson eigi heiður skilinn fyrir framkvæmdina sem og Ásta Dóra Ingadóttir hjá Gallerí Voff sem er eigandi og þjálfari Jóa og gerði þetta mögulegt. Samstarfið við kettina gekk á endanum vel þrátt fyrir efasemdir í upphafi.
„Það er ný og skemmtileg reynsla fyrir okkur að vinna með dýrum á þennan hátt,“ segir Toggi og Skafti bætir því við að reyndar hafi þetta ekki litið vel út í byrjun. „Þegar allir voru komnir á staðinn og tilbúnir að taka upp þá fór Jói, það er að segja kötturinn, í verkfall. Það var allt reynt en hann neitaði alfarið að gera það sem fyrir hann var lagt og því fór þessi fyrsti dagur forgörðum,“ segir hann. Um kvöldið var haldinn krísufundur segir Begga. „Niðurstaða hans var finna fleiri ketti, sem líktust Jóa,“ segir hún og bætir við: „En þegar þeir voru komnir á staðinn tóki Jói við sér og lék hlutverk sitt óaðfinnanlega.“