Atvinnuleysi á meðal ungmenna á Ítalíu mældist 41,2% í október samkvæmt nýjum tölum frá hagstofu landsins. Heildaratvinnuleysi í landinu mælist hins vegar 12,5%.
Fram kemur í tilkynningu frá hagstofunni að tölurnar bendi til þess að ástandið fari versnandi fyrir ungt fólk á Ítalíu en atvinnuleysi á meðal þeirra hafi aukist um 0,8% frá því í september. Sé horft til síðasta árs hafi það aukist um 4,7%. Þannig hafi það mælst 36,5% í október 2012.
Þá hefur heildaratvinnuleysið einnig aukist frá því fyrir ári þegar það var 11,1%. Samtals eru um 3,2 milljónir Ítala án atvinnu en voru 2,9 milljónir á sama tíma á síðasta ári. Ennfremur kemur fram að karlmenn séu líklegri til að hafa vinnu en atvinnuleysi á meðal þeirra er 12% en 13,2% á meðal kvenna.