Hærri gjöld bitna á þjónustunni

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka.
Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka. mbl.is/Eggert

Opinber gjöld aðildarfélaga Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) munu verða um 25,4 milljarðar króna á næsta ári en þessi gjöld námu 21,6 milljarði á árinu 2008. Þetta kom fram í máli Höskuldar H. Ólafssonar, bankastjóra Arion banka og stjórnarformanns SFF, á degi SFF sem haldinn var í dag. 

Höskuldur sagði í ávarpi sínu að enn frekari aukning ótekjutengdra gjalda væri boðuð með fjárlagafrumvarpi ársins 2014 og nýlegum boðuðum aðgerðum vegna skuldaniðurfærslu ríkisstjórnarinnar. „Samtals fela þær aðgerðir í sér að sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki er hækkaður úr 0,041% í 0,366%. Skattprósenta er nífölduð og tekjur af skattinum aukast um 8,5 milljarða króna og verða 95, milljarðar,“ sagði hann. Hér væri um að ræða skattlagningu langt umfram það sem gerist í nágrannalöndum. Hliðstæður skattur, þar sem hann hefur á annað borð verið tekinn upp, væri á bilinu 0,02% til 0,04%. „Óhjákvæmilegt er að ótekjutengd skattlagning af þessari stærðargráðu hafi áhrif á kostnað og þar með vaxtamun lánastofnana.“

Þá benti hann á að opinber gjöld fjármálafyrirtækja væru um 6% af heildartekjum ríkissjóðs á þessu ári. „Atvinnugrein þar sem starfa um 5.600 starfsmenn getur ekki til lengdar staðið undir svo stórum hluta af tekjum ríkissjóðs,“ sagði hann.

Hann sagði að þessi gjöld hefði bein áhrif á kostnað fyrirtækjanna og myndu skila sér í auknum kostnaði þeirra sem njóta þjónustu fjármálafyrirtækja. „Á sama tíma kallar stjórnmálalífið eftir lægri vaxtamun og lægri kostnaði við rekstur fjármálafyrirtækja. Þetta er í besta falli mótsagnakennt,“ sagði Höskuldur. 

„Aðildarfyrirtæki SFF eru stolt af því að leggja umtalsverð lóð á vogarskálarnar þegar kemur að rekstri hins opinbera – og við færumst ekki undan því – en hins vegar blasir við að þegar skattheimta og álagning opinberra gjalda verður umfram það sem getur talist eðlilegt þá bitnar það á endanum á þeirri mikilvægu þjónustu sem fjármálafyrirtæki veita heimilum og fyrirtækjum,“ sagði hann jafnframt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK