Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, segir hagnað bankanna ekki vera óeðlilegan. Hagnaðurinn sé mikill í krónum talið, en líta verði til þess að mikið eigið fé sé bundið í viðskiptabönkunum þremur.
Höskuldur flutti ávarp á degi Samtaka fjármálafyrirtækja sem haldinn var í dag, en Höskuldur er stjórnarformaður samtakanna. Hann sagði að nokkur umræða skapist reglulega í þjóðfélaginu um hagnað fjármálafyrirtækja, þá sér í lagi stóru bankanna þriggja, og oftar en ekki sé talað um „ofurhagnað“.
„Staðreyndin er hins vegar sú að vegin ávöxtun eiginfjár bankanna þriggja er að meðaltali tæp 13% frá árinu 2009 til loka september 2013, eða um 6% umfram ávöxtun ríkistryggðra skuldabréfa á þessu tímabili. Varla er hægt að líta á slíka ávöxtun sem óeðlilega,“ sagði hann. Líta þyrfti til þess að mikið eigið fé er bundið í bönkunum.
„Nú í lok september var samanlagt eigið fé bankanna þriggja um 535 milljarðar króna. Ársávöxtun á því fé miðað við 12% ávöxtunarkröfu er um 64 milljarðar sem verður að teljast eðlileg ávöxtun miðað við núverandi vaxtastig í landinu,“ sagði hann jafnframt. Skylda stjórnenda fjármálafyrirtækjanna væri að reka fyrirtækin með ábyrgum hætti og skila ásættanlegri ávöxtun. „Það verður hins vegar æ meiri áskorun með aukinni skattlagningu,“ benti Höskuldur á.