Greiningarfyrirtækið IFS hefur hækkað verðbólguspá sína fyrir næsta ár úr 3,5% upp í 3,8% vegna fyrirhugaðra áætlana ríkisstjórnarinnar um að lækka skuldir heimilanna um 80 milljarða á næstu fjórum árum. Aðgerðin hefur bein áhrif á greiðslubyrði lána og mun þar af leiðandi auka eftirspurn eftir vörum og þjónustu. Það mun leiða til veikara gengis krónunnar, en jafnframt bæta afkomu sumra fyrirtækja.
IFS segir að með þessari útfærslu muni einnig uppgreiðsluvandi Íbúðalánasjóðs aukast, þótt vanskil gætu minnkað. Þá muni óvissa um skuldastöðu ríkissjóðs aukast og þar með um lánshæfismat ríkissjóðs.
Í greiningunni kemur jafnframt fram að líklega sé 70-85 milljarða lækkun lána vegna séreignarleiðarinnar ofmat. Bent er á að iðgjöld sjóðsfélaga í viðbótarséreignarsparnað hafi í fyrra numið 8,9 milljörðum. Með mótframlagi vinnuveitenda, auk launahækkana megi gera ráð fyrir að viðbótarsparnaður nemi um 30 milljörðum á næsta ári eftir hækkun iðgjalda um 2%. Hluti heimila búi aftur á móti í skuldlausu húsnæði og geti ekki greitt inn á lán og stór hluti borgi meira í viðbótarséreignarsparnað en 500 þúsund á ári, sem er hámarkið sem má greiða inn á lánin. Að þessu gefnu telur IFS að mat sérfræðinefndarinnar sé ofmat.