Þrátt fyrir áhyggjur tengdar fjármagnshöftum og starfsumhverfi fjármálafyrirtækja á Íslandi vildu erlendir fjárfestar kaupa skuldabréf á Íslandsbanka til lengri tíma en þriggja ára.
Tilkynnt var fyrir helgi að Íslandsbanki hefði lokið sínu fyrsta erlenda skuldabréfaútboði að upphæð 500 milljónir sænskra króna, jafnvirði ríflega 9 milljarða íslenskra króna. Til skoðunar er að nota fjármunina til að greiða inn á gjaldmiðlaskiptasamning við Seðlabanka Íslands.
Jón Guðni Ómarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Íslandsbanka, segir í samtali í Morgunblaðinu í dag, að bankinn hafi verið tilbúinn að gefa út skuldabréf til þriggja ára á 400 punktum yfir millibankavöxtum en fjárfestar hafi hins vegar viljað að útgáfan yrði til lengri tíma, eða fjögurra ára. „Það er til marks um að þeir hafi trú á framtíðarhorfum bankans og efnahagsmálum á Íslandi almennt. Þetta er mjög þýðingarmikið skref og traustsyfirlýsing á því uppbyggingarstarfi sem hefur verið unnið í bankanum síðustu ár,“ segir Jón Guðni.