Gjaldþrot félagsins Reykjavík-Imports ehf. nam rúmlega 228 milljónum, en engar eignir fundust upp í lýstar kröfur. Félagið var úrskurðað gjaldþrota 28. ágúst á þessu ári, en skiptum lauk í byrjun desember. Félagið hafði aðallega verið í hlutabréfakaupum og tapað á þeim viðskiptum. Helsti kröfuhafi var Íslandsbanki, en einnig voru hinir stóru viðskiptabankarnir kröfuhafar.
Eigendur Reykjavík-Imports voru athafnarmaðurinn Ólafur Laufdal og fjölskylda hans, en Ólafur rak meðal annars skemmtistaðinn Broadway í Mjódd og seinna Hótel Ísland sem varð að Broadway í Ármúla. Ólafur neyddist hins vegar til að selja Búnaðarbankanum reksturinn árið 1991. Hann hefur á síðustu árum byggt upp gistiþjónustu í Grímsnesi sem kallast Grímsborgir. Þar eru sjö hús með tólf lúxusíbúðum.
Þetta er ekki fyrsta gjaldþrotið vegna hlutabréfaviðskipta sem tengist Ólafi og fjölskyldu, en árið 2011 var Kjarrás ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Það félag var í eigu Ólafs og Kristínar Ketilsdóttur, eiginkonu hans. Engar eignir fengust upp í lýstar kröfur, en samtals nam þrotið um 198 milljónum. Í heild nema því gjaldþrotin tvö um 426 milljónum.