Bresk hugveita spáir því að Bretland taki við af Þýskalandi sem öflugasta hagkerfi Vestur-Evrópu árið 2030 og verði öflugara en Frakkland eftir fimm ár. Bretland verði ennfremur öflugasta hagkerfi Vesturlanda á eftir Bandaríkjunum eftir 15 ár. Helstu ástæður þess eru hröð fólksfjölgun, tiltölulega lágir skattar á evrópskan mælikvarða og vera Breta með sjálfstæðan gjaldmiðil utan evrusvæðisins sem hafi þýtt að þeir hafi komist að mestu hjá neikvæðum afleiðingum af erfiðleikum svæðisins.
Reiknað er með því í spá hugveitunnar Centre for Economics and Business Research (CEBR) að þýska hagkerfið vaxi áfram en hægar en það breska sem stafi einkum af því að íbúar landsins eldist, veiku gengi evrunnar og frekari þörf á efnahagsaðstoð við ríki á evrusvæðinu. Það yrði til góðs fyrir Þýskaland ef evrusvæðið liðaðist í sundur og Þjóðverjar tækju aftur upp þýska markið. Það yrði meðal annars til þess breska hagkerfið næði ekki að fara fram úr því þýska.
Ennfremur segir að vandi breska hagkerfisins sé á hinn bóginn meðal annars sá að ekki hafi tekist að tryggja aðgengi að nýjum útflutningsmörkuðum. Hagvöxtur í Bretlandi sé fremur vegna neyslu innanlands en viðskipta á milli landa. Það myndi sömuleiðis skaða framtíðarhorfur breska hagkerfisins ef Skotland sliti sig frá Breska konungsríkinu og yrði sjálfstætt ríki í samræmi við stefnu þarlendra stjórnvalda en þjóðaratkvæði er fyrirhugað í þeim efnum á meðal Skota.
Þá kemur fram að Kína verði öflugasta hagkerfi heimsins árið 2028 í stað Bandaríkjanna sem falli niður í annað sætið. Indland verði þá hins vegar í þriðja sæti og Japan í því fjórða. Næst komi Brasilía, Þýskaland, Bretland, Rússland, Mexíkó og Kanada. Tveimur árum síðar verði Bretland hins vegar komið upp fyrir Þýskaland. Fjölmargir erlendir fjölmiðlar segja frá spá CEBR í dag og þar á meðal bresku dagblöðin Daily Telegraph og Guardian.