Íslenska leikjafyrirtækið Plain Vanilla, sem stendur á bakvið QuizUp, mest hraðvaxandi iPhone leik sögunnar, tilkynnti nú síðdegis að fyrirtækið hafi safnað 22 milljónum bandaríkjadala, sem jafngildir um tveimur og hálfum milljarði íslenskra króna, frá fjárfestum. Þetta er fjórföldun á því fjármagni sem áður hafði verið lagt í fyrirtækið, en Þorsteinn Baldur Friðriksson, stofnandi og forstjóri fyrirtækisins segist í samtali við mbl.is vilja koma með stærstan hluta af fjármagninu hingað til lands og byggja fyrirtækið upp á Íslandi, en það kallar á fjölda tæknimenntaðra starfa.
Alls hefur fyrirtækið fengið yfir þrjá milljarða íslenskra króna í áhættufjármagn frá stofnun. Fjárfestarnir í þessari umferð eru hinir sömu og áður hafa lagt fé í fyrirtækið. Þar á meðal eru Tencent Holdings og Sequoia Capital, en þau leiða fjárfestinguna að þessu sinni. „Þetta er mjög stórt skref fyrir fyrirtækið og það verður vel spýtt í,“ segir Þorsteinn. Hann segir að þetta sé þriðja fjármögnunin í ár, en eftir að leikurinn kom út í nóvember hafi orðið til mikill áhugi hjá fjárfestum sem hafi keppst við að setja fjármagn í leikinn. Þetta hafi skapað fjárbæra stöðu fyrir Plain Vanilla sem gat valið út fjárfesta sem voru taldir getað hjálpað mest við uppbygginguna.
Sequoia er að sögn Þorsteins virtasti og öflugasti fjárfestingasjóðurinn í Kísildalnum og það hafi verið auðvelt að velja hann til áframhaldandi samstarfs. Með þessari fjárfestingu sest Roelof Botha, einn eigenda Sequoia Capital, í stjórn Plain Vanilla, en Botha var áður fjármálastjóri PayPal þegar það fór á markað, auk þess að hafa setið í stjórnum Instagram, Twitter og fleiri fyrirtækjum. Auk Sequoia er það Tencent Holdings sem leiðir fjárfestinguna. Fyrirtækið er kínverskt og á stóran hlut í vinsælum kínverskum samfélagsmiðlum. Þorsteinn segir að horft sé til þess að sú tenging muni auðvelda þeim sókn á kínverskan markað þegar fram líða stundir.
Á einu ári hefur starfsfólki Plain Vanilla fjölgað úr 6 upp í 35 og segir Þorsteinn að nú sé allt á fullu varðandi að ráða fleiri. „Við þurfum að stækka mikið á næstunni,“ segir hann, en flestir starfsmanna fyrirtækisins eru á Íslandi. Þorsteinn segist vilja halda því þannig og stefnir á að stærstur hluti þróunarvinnunnar fari fram hér á landi. „Rætur fyrirtækisins eru hér og það er yfirlýst stefna hjá mér að vilja stækka eins mikið og hægt er hér á Íslandi,“ segir Þorsteinn.
Stærstur hluti fjármagnsins mun því koma hingað til lands sem erlend fjárfesting að sögn Þorsteins og segir hann þetta ánægjulegt þegar horft sé til þess hvað nýsköpun sé nú að leggja til þjóðfélagsins. „Þessar tölur líta t.d. ekki illa út miðað við stóriðju,“ segir Þorsteinn og bendir á að þetta komi allt til með íslensku hugviti.
Eins og gefur að skilja hafa jólin verið nokkuð annasöm hjá Þorsteini, en hann var erlendis fyrir jól og kom rétt fyrir hátíðina heim til fjölskyldunnar. Þá þurfi hann að fara strax aftur út eftir áramót. Hann segir að mikill tími hafi farið í þessa fjármögnun og játar því að jólin hafi verið með aðeins öðru sniði en undanfarin ár. „Ætli ég þurfi ekki að eiga inni önnur jól,“ segir Þorsteinn í gamansömum tón, en hann segir þetta þó vera skemmtilegasta ævintýri lífs síns sem hann væri ekki til í að sleppa.
Eftir því sem mbl.is kemst næst er ekki óeðlilegt að fjárfestar fái um 20-25% hlut í tækni- og nýsköpunarfyrirtækjum í Kísildal þegar kemur að þessu stigi fjárfestingar. Það þýðir að Plain Vanilla geti verið metið á 88 til 110 milljónir Bandaríkjadala, en það nemur um 10,2 til 12,7 milljörðum íslenskra króna.