Eimskipafélag Íslands fagnar 100 ára afmæli sínu á árinu og verður mikið um að vera af því tilefni. Ólafur William Hand, forstöðumaður markaðs-og kynningardeildar Eimskips segir skemmtilegt og spennandi ár framundan auk þess sem slegið verði upp hátíð á sjálfan afmælisdaginn, 17. janúar næstkomandi.
„Það er skemmtilegt og spennandi ár framundan og haldið verður upp á afmælið með ýmsum viðburðum, stórum sem smáum. Sjálfur afmælisdagurinn er 17. janúar og þá verður mikil og glæsileg afmælishátíð haldin í Hörpunni,“ segir Ólafur.
Íslensk dægurtónlist í bland við sögu félagsins verður flutt á afmælisdaginn í Eldborgarsal Hörpunnar þar sem fram koma meðal annars Björn Jörundur, Valdimar, KK, Bubbi Morthens, Sigríður Thorlacius, Egill Ólafsson, Magnús Eiríksson, Unnsteinn Manuel, Eyþór Ingi og Pálmi Gunnarsson.
„Eimskipafélag Íslands var stofnað þann 17. janúar 1914, þar sem á fimmta hundrað manns komu saman í Fríkirkjunni í Reykjavík. Félagið var nefnt Óskabarn þjóðarinnar í fjölmiðlum landsins og en með stofnun þess var talið að stigið væri eitt mesta heillaspor í sögu þjóðarinnar og sjálfstæðisbaráttu.
Saga Eimskips er samofin þjóðarsögu 20. aldar, langt umfram það sem gerist og gengur með fyrirtæki. Eimskip er elsta skipafélag Íslands og hefur félagið frá upphafi lagt höfuðáherslu á skipaflutninga til og frá landinu en í dag býður Eimskip upp á alhliða flutningsþjónustu um allan heim,“ segir Ólafur.
Eimskip rekur nú skrifstofur í 19 löndum og hefur umboðsmenn í fjölmörgum öðrum þar að auki.