Ferðaþjónustufyrirtækið Íslenskir fjallaleiðsögumenn er að hefja tuttugasta starfsár sitt, en umsvif þess hafa aukist mjög mikið síðustu ár í takt við fjölgun ferðamanna sem hingað koma. Á síðasta ári var vöxtur fyrirtækisins um 20% og voru viðskiptavinir rúmlega fjörutíu þúsund. Elín Sigurveig Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri félagsins, segir í samtali við mbl.is að gert sé ráð fyrir svipuðum vexti á þessu ári og telur hún að tal um offjárfestingu í ferðaþjónustu eigi ekki við rök að styðjast en mikilvægt sé að markaðssetning haldist í hendur við fjárfestingu til að fjárfestingarnar beri sig.
Ferðamönnum fjölgaði mikið á síðasta ári og segir Elín að gengið hafi vel á árinu „Það hefur verið skemmtilega krefjandi verkefni að glíma við vaxtarverkina sem fylgja hröðum vexti,“ segir hún. Þá skipti fjölgun ferðamanna yfir veturinn ferðaþjónustuna öllu máli og breyti rekstrarumhverfinu algerlega, auki stöðugleika og rekstraröryggi. Í fyrra byrjaði fyrirtækið formlega með þjónustu allt árið í Skaftafelli, en starfsstöðin þar hefur verið ein helsta miðstöð fyrirtækisins undanfarin ár.
Íslenskir fjallaleiðsögumenn komu einnig á fót starfsstöð á Grænlandi á síðasta ári, en þar hefur fyrirtækið verið með ferðir í rúmlega 17 ár. Elín segir að í sumar hafi þau opnað gistiþjónustu og í fyrsta skipti verið með starfsmann allt sumarið. Hún segir eftirspurn eftir ferðum á Grænlandi aukast jafnt og þétt en þó mun hægar en gerist hér á landi. Háannatíminn er ennþá mjög stuttur á Grænlandi og eftirspurn á þeim tíma meiri en framboð flugsæta. Síðastliðið sumar hefði t.d. verið hægt að selja mun fleiri ferðir til Grænlands ef flugsætin hefðu verið til staðar, segir Elín.
Hún segir að sérhæfing fari vaxandi í ferðaþjónustunni. Ferðir sem tengjast áhugasviðum ferðamanna hafa sótt í sig veðrið síðustu ár, fuglaskoðunarferðir, skíðaferðir, hjólaferðir og sögutengdar ferðir hafa til að mynda vaxið og dafnað. Þá hefur heilsutengd ferðaþjónusta einnig farið vaxandi að sögn Elínar, en hún trúir því að ferðaþjónustan muni verða enn fjölbreyttari sérhæfðari á komandi tímum. „Ef horft er til okkar geira sérstaklega sem er ævintýraferðageirinn þá heldur hann áfram að styrkjast ár frá ári og Ísland lendir mjög ofarlega á lista yfir þau lönd sem ferðamenn flokka sem ævintýraferðalönd. Því má álykta að við getum horft bjartsýn til framtíða,“ segir Elín.
Ferðaþjónusta þróast og breytist með tímanum og nú er orðið vinsælt að ferðamenn séu raunverulegir þátttakendur að sögn Elínar. Áður fyrr vildi fólk horfa á náttúruna eða annað sem var í boði, seinna vildi það upplifa hlutina en í dag er orðið vinsælt að vera þátttakandi og fá þannig dýpri upplifun eða fara heim með nýja kunnáttu eða þekkingu. Elín segir dæmi um þetta vera þegar fólk fari í heimsókn á sveitabæi og taki þátt í sveitastörfunum, eða taki þátt í eldamennsku í matarferðum. „Þetta er eins og með prjónaferðirnar sem við bjóðum upp á þar sem viðskiptavinir kynnast hvaðan ullin kemur. Þeir fara á sveitabæ og sjá kindurnar, fylgjast með vinnsluferlinu og prjóna úr ullinni í lokin og sama má segja um fjallamennskunámskeið sem verða sífellt vinsælli.
Mikil sókn hefur verið í uppbyggingu í ferðaþjónustu síðustu ár og eru fréttir af hótelbyggingum nær daglegt brauð. Meðal annars á að fara að byggja 5 stjörnu hótel við Hörpu, auk þess sem ný hótel eru á teikniborðinu í öllum landshlutum. Elín segir þetta nauðsynlegan hluta af því að byggja upp fjölbreytni í ferðaþjónustu eins og verið sé að gera hér og bætir við að skortur á 5 stjörnu hóteli hafi hingað til komið í veg fyrir komu ákveðinna hópa ferðamanna sem vilji gista á slíkum stöðum. Ekki er því um að ræða offjárfestingu að hennar mati.
Gjaldtaka á ferðamenn er annað sem hefur verið mikið í umræðunni. Elín segir að nú þegar sé heilmikil skattlagning á ferðaþjónustu, en að Samtök ferðaþjónustunnar hafi alltaf sagt að þau væru tilbúin fyrir einhverskonar ferðamannagjald. Það þurfi aftur á móti að vanda vel til verka og ekki sé sama hvernig gjaldheimtunni verði háttað. „Það mega ekki myndast raðir við ferðamannastaði,“ segir Elín og vill ekki sjá hlið eða aðgangspassa á hverjum stað. Þess í stað telur hún umhverfisgjald, sem hægt er að greiða á netinu eða við komu til landsins vera hentugustu lausnina. „Ef farið er í gjaldtöku þá vildi ég sjá hana í svipuðu formi og ESTA gjaldið sem er innheimt þegar farið er til Bandaríkjanna. Það er greitt sérstaklega á netinu fyrirfram og er eftirlitið í vegabréfaskoðuninni. Þetta er einfalt og fyrirhafnarlítið og aldrei hef ég heyrt af neinum sem hefur hætt við ferð til Bandaríkjanna af því að viðkomandi þarf að greiða þetta gjald,“ segir Elín.
Fyrirkomulagið á gjaldheimtunni er lykilatriði að sögn Elínar til þess að vöxtur greinarinnar haldi áfram með svipuðum árangri og síðustu ár. Segir hún að samkvæmt tölum Hagstofunnar stefni nú í að ferðaþjónustan verði stærsta útflutningsgrein landsins árið 2013, en enn liggja endanlegar tölur ekki fyrir.
Eins og fyrr sagði heldur fyrirtækið í ár upp á tuttugasta starfsárið og segir Elín að því hafi verið fagnað með því að koma á fót umhverfissjóð. Í hann voru lagðar tvær milljónir en auk þess ætlar fyrirtækið að setja 1% af hagnaði hvers árs í sjóðinn héðan í frá. Þá verður úthlutað styrkjum úr honum árlega í framtíðinni. Að öðru leyti segir Elín að horft verði til þess að byggja fyrirtækið áfram upp, áherslan verður meðal annars á fjölgun vetrarferða til að halda áfram að jafna sveiflur og styrkja rekstraröryggið.