Þegar lánsfjárkreppan var byrjuð árið 2008 og bankarnir höfðu misst aðgang að mörkuðum, hlutabréfaverð lækkað og útlánagæði bankanna versnað hefðu eftirlitsstofnanir átt að sjá fyrir að slæmir hvatar gætu myndast innan bankanna. Þessir hvatar fólu það meðal annars í sér að vona fela slæmt gengi og vona að það myndi rætast úr efnahagsmálum fyrr en seinna. Þetta segir Friðrik Már Baldursson, prófessor við Háskólann í Reykjavík, en hann hélt fyrirlestur um ris og fall íslenska bankakerfisins í Seðlabankanum í dag. Hann segir að áður en bankarnir fari aftur á markað þurfi að setja skýrar reglur um eignarhald og koma í veg fyrir að svipuð saga geti endurtekið sig aftur hér á landi. Í dag segir hann íslensku bankana þó vera heldur til of íhaldssama sem hamli nýjum verkefnum.
Friðrik segir að strax og í harðbakkann sló í byrjun árs 2008, meðal annars með falli Bear Sterns bankans, hafi FME og Seðlabankinn átt að kanna hvað bankarnir væru að gera. Bréf Marvin Kings, bankastjóra Bretlandsbanka í apríl sama ár hafi svo átt að hringja enn fleiri viðvörunarbjöllum. Þá hefði til dæmis mátt bregðast við með að setja reglur sem takmörkuðu útlánavöxt bankanna.
Hann segir það ekki hafa verið hlutverk Seðlabankans að vera í aðalhlutverki í slíku verkefni, en ef Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn hefðu starfað saman hefði mátt fá svipaða niðurstöðu og fékkst með skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um hrunið. Þannig hefði t.d. komið upp mynd af kerfislægri áhættu tengdri Baugi, sem Friðrik segir hafa verið orðna ótrúlega mikla.
Þegar Friðrik er spurður út í hvort að það sem sé eitthvað sem bankarnir í dag þurfi að læra af uppgangstímanum og hruninu segir hann að ekki séu mikil hættumerki hérlendis í dag. Íslensku bankarnir séu jafnvel „of íhaldssamir, bæði seinir til að afskrifa lán og of íhaldssamir að lána til nýrra verkefna.“ Hann segir þá einnig mjög vel fjármagnaða, en að aðalvandamálið sé erlendis. Bendir hann til Evrópu þar sem bankar hafa keypt mikið magn ríkisskuldabréfa þrátt fyrir að það teljist mjög áhættusamt. Þá eigi enn eftir að setja reglur í veigamiklum málum, eins og hvað eigi að gera þegar stórir bankar falli. Segir hann að horfa þurfi til þess að gera kerfið í heild minna viðkvæmt fyrir áföllum með því að auka kröfuna um eiginfjárhlutfall.
Í dag er byrjað að horfa aftur til þess að setja íslensku bankana á markað og segir Friðrik að það sé mikilvægt að hugað sé vandlega að reglum kringum bankana áður en kemur að því. Nefnir hann sem dæmi að nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir að fámennur hópur einstaklinga geti eignast stóran hlut í bönkum. „Við þurfum tvímælalaust að læra af þessu og sagan sýnir okkur hvað það er mikilvægt að koma í veg fyrir að einhver fjárfestir sem er í stórum verkefnum út í heimi geti notað banka og þar með sparifé almennings að vild.“ Horfir hann aðallega til þess að dreift eignarhald sé æskileg og að litlir hluthafar hafi rödd og réttindi. Að lokum skipti eftirlitið miklu máli og að „reglurnar séu nægjanlega stífar þannig að ekki sé hægt að nota bankana á þann hátt sem skeði á Íslandi,“ segir Friðrik.