Eftir myndarlega styrkingu í desembermánuði er gengi krónu í ársbyrjun nú umtalsvert hærra en raunin var á sama tíma í fyrra. Verðbólguþrýstingur er að sama skapi minni um þessar mundir. Þróunin kemur Seðlabankanum vel, enda eykur hún trú á getu bankans til að halda gengissveiflum í skefjum, auk þess sem hann hefur náð að afla sér töluverðs gjaldeyris síðustu mánuði. Auk þess hefur þróunin dregið úr verðbólguvæntingum. Þetta kemur fram hjá greiningardeild Íslandsbanka í dag.
Krónan er um 7% sterkari gagnvart evru og 10% sterkari gagnvart dollar en raunin var fyrir einu ári. Gagnvart viðskiptaveginni körfu helstu gjaldmiðla er krónan nú u.þ.b. 10% sterkari en raunin var fyrir ári.
Gengisþróun krónunnar hefur verið ólík í vetur því sem var árin á undan. Frá nóvemberbyrjun 2013 hefur krónan styrkst um ríflega 4% gagnvart körfu helstu gjaldmiðla og hefur hún ekki verið sterkari á þennan mælikvarða síðan í maí síðastliðnum. Frá nóvemberbyrjun 2012 fram til áramóta veiktist krónan hins vegar um nærri 3%, og árið þar á undan nam veikingin á sama tímabili nærri 2%, segir greiningardeildin og bætir við að styrkingin undanfarið komi á óvart.
Ýmsar ástæður má nefna fyrir þessari ólíku þróun. Meðal annars segir greiningardeildin að afborganir erlendra lána fyrirtækja og opinberra aðila séu talsvert smærri í sniðum þennan veturinn en raunin var ári fyrr. Þá hefur gjaldeyrisstaða Landsbankans breyst mikið, og endurspeglast sterk lausafjárstaða bankans í gjaldeyri m.a. í 50 milljarða fyrirframgreiðslu hans inn á skuldabréf gagnvart þrotabúi gamla Landsbankans. Síðast en ekki síst hefur gjaldeyrisinnflæði vegna ferðamanna og vöruviðskipta aukist milli ára, og sér í lagi hefur ferðamannastraumur utan háannatíma vaxið umtalsvert.
Ekki lítur út fyrir að veruleg breyting verði á þessum aðstæðum næsta kastið að mati greiningardeildarinnar og því eru ágætar líkur á að gengi krónu muni áfram verða nokkru hærra en það var í fyrra, þótt ómögulegt sé að segja til um skammtímasveiflur í genginu.