Smeyginsgull leiðir til óðaverðbólgu

Ríkidæmi Smeygins er mikið, en ef það kæmist í umferð …
Ríkidæmi Smeygins er mikið, en ef það kæmist í umferð gæti það leitt til óðaverðbólgu að mati greiningardeildar Arion banka.

Ef dverg­un­um í sög­unni Hobbit­inn eft­ir J.R.R.Tolkiens tekst að kom­ast yfir gullið sem drek­inn Smeyg­inn ligg­ur á í Fjall­inu eina er lík­legt að til óðaverðbólgu kæmi með slaka á aðhalds­stigi pen­inga­stefn­unn­ar og mikl­um um­svif­um í hag­kerf­inu. Í besta falli myndi af­rek þeirra aðeins leiða til hríðlækk­andi gull­verðs og lækk­un­ar á verði eðal­steina. Þetta er meðal þess sem kem­ur fram í grein­ingu Ari­on banka í dag, en þar er hag­kerfi Miðgarðs skoðað og áhrif gulls­ins í Fjall­inu eina.

Bent er á að sam­kvæmt út­reikn­ing­um tíma­rits­ins For­bes sé Smeyg­inn næst rík­asta skáld­sagnar­per­sóna ver­ald­ar og eru auðæfi hans met­in á 6.300 millj­arða, eða sem nem­ur um fjór­faldri lands­fram­leiðslu Íslands. Aðeins Jóakim Aðalönd nær hærra í auðsöfn­un.

Frægðarför gæti ýtt und­ir óðaverðbólgu

Seg­ir grein­ing­ar­deild­in að ef gert sé ráð fyr­ir því að gull sé greiðslumiðill í Miðgarði megi gera ráð fyr­ir að fram­boð gulls auk­ist til muna með því að drepa drek­ann og dreifa gull­inu. Þannig væri slakað aft­ur á aðhalds­stigi pen­inga­stefn­unn­ar, með þeim áhrif­um að um­svif í hag­kerf­inu ykj­ust í fyrstu en óðaverðbólga tæki síðan við. Áhrif­in verða sér­stak­lega mik­il í ljósi þess að íbúa­fjöldi Miðgarðs er venju­lega ekki tal­inn vera meiri en nokkr­ir tug­ir millj­óna í allra mesta lagi. Seg­ir grein­ing­ar­deild­in að líta megi á Smeyg­inn sem eins kon­ar íhalds­sam­an seðlabanka­stjóra sem hert hafi veru­lega á pen­inga­legu aðhaldi og nefn­ir í því sam­bandi lík­ingu við Paul Volcker, sem var seðlabanka­stjóri í Banda­ríkj­un­um á átt­unda ára­tugn­um.

Við þess­ar aðstæður tel­ur grein­ing­ar­deild­in lík­legt að gullið myndi auka kaup­mátt þeirra sem fyrst fá gullið í hend­urn­ar á kostnað þeirra sem fá það síðar. Þannig gætu dverg­arn­ir, vatna­fólkið og fleiri hugs­an­lega vel við unað á meðan íbú­ar fjær fjall­inu eina, meðal ann­ars hobbit­ar og íbú­ar Gondor, myndu horfa upp á pen­inga­leg­ar eign­ir sín­ar fuðra upp á verðbólgu­báli Smeyg­insgulls­ins. Ráðlegg­ur grein­ing­ar­deild­in þeim að fjár­festa í hobbita­hol­um og öðrum fast­eign­um, verðtryggðum álfa­bréf­um eða öðrum eigna­flokk­um sem halda verðgildi sínu vel.

Í besta falli myndi aðeins gull­verð lækka

Nokkr­ir fyr­ir­var­ar eru þó við þessa spá og er það aðallega vegna þess að lítið er vitað um greiðslumiðlun í Miðgarði. T.d. virðist silf­ur vera aðal­gjald­miðill­inn og lítið er rætt um gull í öðru sam­hengi en sem hrávara í skraut­gripa­gerð. Þannig ætti mik­il fram­boðsaukn­ing gulls vegna frægðarfar­ar dverg­anna að hafa þau áhrif að verð gulls mælt í silfri hríðlækkaði, án þess að al­mennt verðlag raskaðist sér­stak­leg. Þá mætti bú­ast við svipuðum áhrif­um á verð eðal­steina.

Í seinna dæm­inu ráðlegg­ur grein­ing­ar­deild­in að fjár­fest­ar í Miðgarði minnki vægi gulls og eðal­steina í eigna­söfn­um sín­um og að selja eign­ar­hluti í gull- og dem­antanám­um.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK