Smálánaheimurinn skiptist í tvær blokkir. Annars vegar eru fyrirtækin Kredia og Smálán. Þau eru bæði í skráð í eigu Leifs Alexanders Haraldssonar.
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans er endanlegur eigandi félaganna hins vegar fjárfestir frá Slóvakíu sem heitir Mario Megela. Megela þessi á hlut í félagi sem heitir DCG ehf. Leifur er hins vegar skráður 100 prósenta eigandi þess félags í íslensku fyrirtækjaskránni, en hann er auk þess forstjóri DCG.
Fyrirtækið er með víðtæka starfsemi á Íslandi og í Tékklandi. Fyrir utan íslensku smálánafyrirtækin tvö á DCG meðal annars Kredia.cz, smálánafyrirtæki í Tékklandi, Hópkaup, Heimkaup og SpotOn, íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki sem starfar á auglýsingamarkaði og býður upp á sambærilega þjónustu og Google Ads.
Í desember síðastliðnum keypti DCG síðan innheimtufyrirtækið Inkasso, sem hefur meðal annars séð um innheimtu fyrir smálánastarfsemi, af Íslensku lögfræðistofunni sem hafði átt fyrirtækið í um þrjú ár.
Haukur Örn Birgisson, einn eigenda Íslensku lögfræðistofunnar, hefur starfað sem lögmaður Kredia og Útlána, samtaka smálánafyrirtækja. Haukur staðfesti söluna í samtali við Kjarnann og sagðist ekki lengur vera lögmaður Útlána.
Hin blokkin á íslenska smálánamarkaðnum er samansett af þremur fyrirtækjum: Hrað - peningum, 1909 og Múla. Þau eru öll í eigu félags sem skráð er á Kýpur og heitir Jumdon Finance Ltd. Forsvarsmaður og framkvæmdastjóri félaganna á Íslandi er Óskar Þorgils Stefánsson. Þegar Kjarninn setti sig í samband við Óskar og óskaði eftir upplýsingum um endanlega eigendur Jumdon Finance sagðist hann þurfa að senda fyrirspurn á stjórnar menn félagsins á Kýpur vegna málsins. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá Óskar til að svara spurningunni um eignarhaldið fékkst slíkt ekki áður en Kjarninn kom út, að því er segir í Kjarnanum sem kom út í morgun.