Rekstur Haga umfram áætlanir

Hagnaður Haga á þriðja ársfjórðungi þessa rekstrarárs nam 800 milljónum.
Hagnaður Haga á þriðja ársfjórðungi þessa rekstrarárs nam 800 milljónum. Eggert Jóhannesson

Hagnaður Haga á þriðja ársfjórðungi 2013/14 nam 800 milljónum króna, en heildar vörusala var tæplega 18 milljarðar. Á fyrstu níu mánuðum rekstrarársins var hagnaður félagsins 2,7 milljarðar og heildarsala 55,70 milljarðar. Framlegð fyrstu níu mánaðanna var 24,2% og handbært fé félagsins 2,5 milljarðar. Eigið fé félagsins hefur hækkað um rúma 2 milljarða og er nú 10,9 milljarðar. Eiginfjárhlutfall Haga var 41% í lok tímabilsins. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Framlegð félagsins var 13.527 milljónir króna á fyrstu níu mánuðunum, samanborið við 12.585 milljónir króna árið áður eða 24,2% samanborið við 24,1%. Rekstrarkostnaður í heild hækkar um 2,5% milli ára en kostnaðarhlutfallið lækkar úr 17,5% í 16,8%.

Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 4.236 milljónum króna, samanborið við 3.546 milljónir króna árið áður. EBITDA framlegð var 7,6%, samanborið við 6,8% árið áður. Hagnaður tímabilsins fyrir skatta nam 3.475 milljónum króna, samanborið við 2.612 milljónir króna árið áður.  Hagnaður eftir skatta nam 2.773 milljónum króna á tímabilinu eða tæplega 5,0% af veltu. Hagnaður eftir skatta á fyrra ári var 2.063 milljónir.

Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 26.632 milljónum króna. Fastafjármunir voru 12.733 milljónir króna og veltufjármunir 13.899 milljónir króna. Þar af eru birgðir 6.432 milljónir króna. Hækkun birgða frá lokum febrúar skýrist að mestu með birgðasöfnun vegna jólavertíðar. Birgðir á sama tíma í fyrra námu 5.963 milljónum króna sem nemur 7,9% hækkun milli ára, að því er segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að rekstur á þriðja ársfjórðungi hafi verið umfram áætlanir félagsins og betri en á sama tímabili í fyrra. Segja stjórnendur að horfur í rekstri séu góðar, líkt og hefur verið. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum ætla verslanir Haga á næstu dögum að lækka verð á nokkur hundruð vöruliðum um að meðaltali 2-3%. Um er að ræða vörur sem verslanirnar flytja beint inn frá erlendum birgjum og er þar nýtt það svigrúm sem styrking krónunnar gefur til verðlækkunar.

Hluti starfsemi vöruhúss Aðfanga mun flytja sig um set á vormánuðum þar sem á síðasta ári voru fest kaup á fasteign við Skútuvog 5 í Reykjavík. Um er að ræða kæli- og frystivörugeymslu vöruhússins en hún var áður í leiguhúsnæði við Brúarvog í Reykjavík. Auk þess mun hefjast vinna við að undirbúa byggingu nýs vöruhúss Banana en félagið hefur fest kaup á lóð við Korngarða 1 í Reykjavík. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK