Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segist vilja sjá breytingar á virðisaukaskattskerfinu þannig að munur milli efra og neðra þrepsins minnki. Hann horfir þar bæði á hækkun neðra þrepsins og lækkun þess efra. „Við sjáum fyrir okkur að virðisaukaskattskerfið taki breytingum þannig að við náum fram því mikilvæga skrefi að draga úr muninum milli skrefanna,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is
„Ég vil lækka efra þrepið og það er ekki ólíklegt að við þurfum að hækka neðra þrepið á móti, en til að vega á móti neikvæðum áhrifum af þeirri aðgerð lækkar efra þrepið og síðan viljum við skoða vörugjöldin til lækkunar og fella þau burt í sumum tilfellum,“ segir Bjarni, en hann segir að þrátt fyrir að neðra þrepið myndi hækka matvælaverð eitthvað, þá sé efra þrepið stóri skattstofninn og lækkun á honum muni vega á móti þeirri hækkun.