Aukinn áhugi íslenskra fyrirtækja á Grænlandi hefur ýtt undir þróun í landinu, en þar eru meðal annars tækifæri í ferðamennsku, fiskveiðum og í námuvinnslu og nú síðast olíuleit á hafi úti. Þetta sagði Vittus Qujaukitsoq, fjármála- og innanríkisráðherra Grænlands, á fundi Grænlenska-íslenska viðskiptaráðsins á Hótel Loftleiðum í dag. Hann sagði að Grænlendingar gætu á móti lært mikið af Íslendingum og nefndi hann sérstaklega reynslu af því að eiga í samskiptum og viðskiptum erlendis.
Qujaukitsoq sagði að Grænland hefði mikinn áhuga á að læra af ýmsum innviðum sem væru hér til staðar og gætu auðveldað landinu að verða efnahagslega sjálfstætt fljótlega. Þá gæti Grænland einnig lært mikið frá Íslandi þegar kæmi að sjálfstæðismálum og þar væru mörg sameiginleg markmið. Af innviðum og stjórnkerfi sagði Qujaukitsoq fiskveiðistjórnunarkerfið vera mjög áhugavert. Þá nefndi hann að Grænland gæti nýtt sér reynslu Íslendinga af efnahagsstjórnunartækjum og skattlagningu til þess að ná sem bestum árangri.
Nálægð þjóðanna tveggja og tengsl í menningu og sögu gera Ísland að stærsta mögulega samstarfsaðila Grænlands í framtíðinni, segir Qujaukitsoq. Hann telur möguleika á samstarfi vera mikla milli landanna, meðal annars vegna norðurskautareynslu. Sló hann að lokum á létta strengi og sagði að í ljósi samstarfs landanna væri besta leiðin að skipta á nöfnum landanna til þess að koma í veg fyrir misskilning erlendra einstaklinga.