Stjórn Kartöfluverksmiðju Þykkvabæjar hf. hefur ákveðið að breyta merkingum á umbúðum sínum og tilgreina eftirleiðis upprunaland kartafla sem seldar eru undir merkjum fyrirtækisins. Með þessu er Þykkvabæjar að svara kalli neytenda um að uppruni landbúnaðarafurða sé öllum ljós og auðveldara sé fyrir neytendur að taka upplýsta ákvörðun við matarinnkaup, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.
Kartöfluverksmiðja Þykkvabæjar er að mestu í eigu bænda. Markmiðið með stofnun hennar fyrir 33 árum var að vinna og markaðssetja íslenskar kartöflur. Kartöfluuppskeran er breytileg milli ára, einkum vegna veðurskilyrða. Miklar rigningar, þurrkar, næturfrost og fleiri ytri aðstæður hafa áhrif á uppskeruna. Þegar framboð á kartöflum er minna
en eftirspurn hefur fyrirtækið svarað kalli neytenda með því að flytja tímabundið til landsins erlendar kartöflur, nánast eingöngu frá Danmörku og Hollandi.
Undirbúningur að merkingunum er þegar hafinn og munu neytendur sjá þær á framleiðsluvörum fyrirtækisins innan skamms.