Það mætti með sanni segja að horfurnar fyrir sex stærstu bankana í Bandaríkjunum séu bjartari en oft áður. Svo virðist sem að áhrif efnahagskreppunnar á rekstur og starfsemi bankanna fari dvínandi og skiluðu þeir allir, svo dæmi sé tekið, góðum hagnaði í fyrra. Eftir erfiðar aðhaldsaðgerðir og slæmar aðstæður á mörkuðum víða um heim undanfarin ár segja greinendur loks að það versta sé afstaðið.
Erfiðlega hefur gengið hjá sex stærstu bönkunum í Bandaríkjunum, JP Morgan Chase, Bank of America, Citigroup, Wells Fargo, Goldman Sachs og Morgan Stanley, frá því að efnahagshrunið skall á haustið 2008. Mikil ládeyða hefur verið í bandarísku efnahagslífi, skuldakreppa hefur hrjáð Evrópu og þá hefur regluverk fjármálamarkaða breyst til muna með nýrri löggjöf.
Nýjar afkomutölur fyrir seinasta ár, 2013, gefa þó til kynna að horfurnar séu bjartar og að það sé versta sé að baki, að mati viðmælenda Wall Street Journal.
Samanlagður hagnaður þessara sex banka nam 76 milljörðum Bandaríkjadala, jafnvirði um 8.850 milljarða króna, í fyrra. Það er sex milljarða dala minni hagnaður en var árið 2006, sem var sannkallað metár.
„Bankageirinn er endurrisinn,“ segir Gerard Cassidy, greinandi hjá RBC Capital Market. Að öllu jöfnu „munu bankarnir slá öll met“ árið 2014, bætir hann við.
Á sama tíma og rekstur bankanna fer batnandi hafa hlutabréf þeirra hækkað umtalsvert í verði. KBW-bankavísitalan, sem oft er litið til, hækkaði til dæmis um 35% í fyrra. Það er meiri hækkun en varð á sjálfri S&P 500-vísitölunni. Hefur verð á hlutabréfum JP Morgan og Wells Fargo ekki verið jafnhátt frá því árið 2005.
Þó svo að flestir sérfræðingar geri ráð fyrir auknum hagnaði bankanna á næstu misserum, samhliða uppsveiflu í efnahagslífinu og hækkandi vöxtum, þá benda ýmsar þekktar verðkennitölur til þess að hlutabréfaverð bankanna sé of hátt. Óttast sumir fjárfestar að verðið gæti farið að lækka strax á þessu ári.
Ein leið fyrir fyrirtæki til að auka hagnað sinn er að draga úr rekstrarkostnaði með því að fækka til dæmis starfsfólki og lækka laun þeirra. Í seinustu viku tilkynnti Goldman Sachs að launakostnaður bankans hefði dregist saman um þrjú prósent milli ára. Þá hafa forsvarsmenn Bank of America sagt að þeir hafi sagt upp 25 þúsund starfsmönnum í fyrra. Alls fækkuðu sex stærstu bankarnir starfsfólki um 45 þúsund í fyrra. Viðmælendur Wall Street Journal benda til dæmis á launakostnað sem hlutfall af tekjum, sem hefur lækkað mjög hjá bönkunum. Hlutfallið var 36.9% hjá Goldman Sachs í fyrra og hefur ekki verið lægra síðan árið 2009.
Forsvarsmenn bankanna hafa bent á að ýmis kostnaður vegna nýrra reglna og aukins eftirlits hafi aukist verulega síðustu ár. Það sé bein afleiðing af Dodd-Frank löggjöfinni svokallaðri.
Fjármálakreppan varð til þess að stjórnvöld á Vesturlöndum réðust í allsherjarendurskoðun á regluverki fjármálamarkaða. Bandaríkjamenn riðu á vaðið um mitt ár 2010 þegar lagabálkur kenndur við fyrrverandi öldungadeildarþingmanninn Chris Dodd og fulltrúadeildarþingmanninn Barney Frank tók gildi. Um er að ræða viðamestu breytingar sem gerðar hafa verið á lögum um starfsemi bandarískra fjármálafyrirtækja frá því í kreppunni miklu haustið 1929.
Mörgum þykir löggjöfin heldur íþyngjandi og flókin. Ómögulegt sé fyrir hinn almenna borgara að átta sig á öllum reglunum og hafa til dæmis stærstu bankarnir ráðið heilu lögfræðistofurnar til að kynna sér löggjöfina og aðlaga starfsemina að henni. Litlu og meðalstóru fjármálafyrirtækin hafa hins vegar ekki einu sinni haft bolmagn til þess. Löggjöfin er alls um fjórtán þúsund blaðsíður og mun að endingu kveða á um 400 reglur, en tæplega helmingur þeirra hefur nú þegar tekið gildi.
Fyrirséð er að bankarnir muni þurfa að glíma við löggjöfina og allar nýju reglugerðirnar á næstu misserum. Útgjöld bankanna munu því að öllu óbreyttu fara hækkandi, sem og ýmis lögfræðikostnaður. Það sem bönkunum hefur hins vegar tekist er að finna leiðir til að auka tekjur sínar, en tekjur sex stærstu bankanna í Bandaríkjunum jukust um fjögur prósent á seinasta ári.
Sama þróun á sér stað þegar litið er til umsvifaminni viðskiptabanka, en alls eru um 9.600 slíkir í Bandaríkjunum. Ekki hafa allir bankarnir birt afkomutölur fyrir seinasta ár en ýmislegt bendir til þess að samanlagður hagnaður þeirra hafi aldrei verið meiri. Mestur var hann árið 2006, þegar hann nam 145,2 milljörðum Bandaríkjadala.
Sumir greiningaraðilar, sem Wall Street Journal ræddi við, hafa bent á að arðsemi eigin fjár bankanna, verðkennitala sem sýnir hlutfallið á milli hagnaðar bankanna og eigin fjár þeirra, sé mun lægri en hún var fyrir nokkrum árum. Til dæmis var hlutfallið ellefu prósent í fyrra hjá Goldman Sachs en 33% árið 2006. Hlutfallið var meira að segja lægra hjá JP Morgan og Bank of America.
Á meðan rekstur bandarískra banka fer batnandi eru enn blikur á lofti í Evrópu. Deutsche Bank er einn stærsti bankinn í Evrópu en hann tapaði einum milljarða evra, jafnvirði rúmra 115 milljarða króna, á fjórða fjórðungi ársins 2013. Tekjur bankans drógust saman um sextán prósent milli ára og námu 6,6 milljörðum evra. Tapið skýrist að miklu leyti af afskriftum á eignum en þá hefur lögfræðikostnaður vegna mála sem viðskiptavinir höfðuðu gegn bankanum aukist verulega og var um hálfur milljarður evra. Tókst bankanum ekki að selja eignir eins og forsvarsmenn hans höfðu gert sér vonir um.